Samþykkt að tryggja stöðu þeirra sem fara milli félaga innan ASÍ

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að tryggja stöðu þeirra sem ganga í félagið eftir að hafa greitt í önnur stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands. Ekki er óalgengt að starfsfólk sem fer milli landshluta og skiptir um stéttarfélag missi við það réttindi sem það hafði áður áunnið sér inn hjá viðkomandi stéttarfélagi sem það greiddi til á þeim tíma. Umræða hefur verið innan verkalýðshreyfingarinnar um að taka á þessu með því að starfsfólk færi í auknum mæli réttindi milli stéttarfélaga. Framsýn hefur nú ákveðið að ganga þetta skref endanlega með samþykkt aðalfundarins sem er töluvert réttlætismál. Félagið hafði reyndar áður sveigt reglur félagsins að þessu markmiði en nú með samþykkt aðalfundarins hefur það verið fest endanlega í sessi. Þá má geta þess að aðalfundurinn samþykkti einnig formlega að tryggja stöðu öryrkja og eftirlaunaþega sem greiddu til félagsins við orkutap eða þegar þeir fóru á eftirlaun áframhaldandi réttindi hjá félaginu.

Hér má lesa samþykktir aðalfundarins:

Réttindi þeirra sem fara milli stéttarfélaga innan ASÍ og greiða til Framsýnar
Tillaga stjórnar Framsýnar til aðalfundarins er að þeir félagsmenn sem ganga formlega í Framsýn og greiddu áður í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands flytji að fullu með sér áunninn réttindi frá þeim félögum sem þeir áður greiddu til sem taki mið af reglugerðum sjóða og félagslögum Framsýnar á hverjum tíma. Það er eftir að viðkomandi aðilar hafa greitt í einn mánuð eða lengur til félagsins.

Réttarstaða öryrkja og eftirlaunafólks innan Framsýnar
Tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar, stéttarfélags til aðalfundar varðandi réttindi öryrkja- og eftirlaunaþega sem greiddu til félagsins við starfslok. Aðalfundur Framsýnar samþykkir að öryrkjar og eftirlaunafólk sem greiddu til Framsýnar við starfslok viðhaldi sínum réttindum að fullu m.v. greitt félagsgjald samkvæmt lögum og reglugerðum félagsins á hverjum tíma og ákvæðum kjarasamninga. Þá er við það miðað að réttindi þessa hóps falli undir skuldbindingar félagsins gagnvart lögum og reglugerðum Alþýðusambands Íslands og þeirra aðildarsambanda sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fundarmenn samþykktu tillögurnar samhljóða.
 

 

Deila á