Aldrei fleiri félagsmenn greitt til Framsýnar

Alls greiddu 2.920 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2016 en greiðandi félagar voru 2.455 árið 2015. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði verulega milli ára. Af þeim sem greiddu til félagsins voru 1.607 karlar og 1.313 konur sem skiptast þannig, konur eru 45% og karlar 55%.  Hér er um að ræða athyglisverðar  breytingar, fram að þessu hefur skiptingin milli kynjanna verið mjög jöfn s.br. árið 2015. Þá var skiptingin, konur 49,6% og karlar 50,4%.  Skýringin liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf. Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið. Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 292, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu. Félagsmenn þann 31. desember 2016 voru samtals 3.212, það er greiðandi félagar og gjaldfrjálsir.

Þá má geta þess að 469 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 38 á milli ára. Árið 2015 greiddu 431 launagreiðendur til félagsins.

 

Deila á