Vorboðarnir ljúfu í heimsókn

Það er ekki dónalegt fyrir sveitarfélag eins og Norðurþing að eiga sveit í bæ. Börn og starfsfólk Leikskólans Grænuvalla nýttu sér þetta í morgun og fóru í heimsókn í Grobbholt sem er á Skógargerðismelnum á Húsavík. Um 100 börn og starfsmenn fengu sér göngutúr og skoðuðu lömb og búfénað auk þess myndaðist biðröð við gamla dráttarvél á svæðinu sem ungviðið var afar spennt fyrir. Eins og öllum góðum göngutúrum sæmir fengu gestirnir sér Trópí og kex í nesti eftir velheppnaða skoðunarferð í Grobbholt. Reyndar voru ærnar nokkuð ágengar og vildu fá að smakka kexið góða enda vanar því að fá brauð og kex hjá ábúendum í Félagsbúinu Grobbholti. Hér má sjá myndir úr heimsókninni:

Deila á