„Fjármálaráðherra sagði hér á dögunum að hefði íslenskt launafólk sagt upp kjarasamningum 1. mars síðastliðinn hefðu getað orðið nýjar hamfarir á Íslandi, af mannavöldum.“

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar var með kröftuga hátíðarræðu á fjölmennum baráttufundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í gær. Hér má lesa ræðuna.

Góðir gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér, á sjálfum baráttudegi verkalýðsins.

Ungur vinur minn spurði mig um daginn hvort við ætluðum ekki að fara að hætta þessu 1. maí kjaftæði, baráttufundir í þeirri mynd sem haldnir væru í dag væru tímaskekkja og löngu úrelt fyrirbæri. Hann færði rök fyrir máli sínu, þau að Íslendingar lifðu góðu lífi og því væri ekki lengur þörf á svona gamaldags baráttufundum.

Ég er þessum málflutningi algjörlega ósammála, tel að einmitt í neyslusamfélagi nútímans sé mjög mikilvægt að halda í þau gildi sem 1.maí hefur, rifja upp söguna og flagga fána verkalýðsins. Flagga fánanum rauða sem er sameiningarmerki verkalýðshreyfingarinnar og minnast um leið allra þeirra sem þennan dag hafa, undir  fánum réttlætisins, krafist þjóðfélags jöfnuðar og friðar. Hlusta á fótatak forfeðranna, varðveita sigra þeirra og sækja um leið fram til nýrra sigra.

Sagan er okkur mikilvæg og það er stundum er sagt að til þess að geta haft áhrif á framtíðina þurfi maður að skilja fortíðina. Ég held að í þeim orðum felist mikill sannleikur.

Og við megum ekki gleyma.

Hér á dögunum datt ég ofan í sögu Alþýðusambands Norðurlands, en það var stofnað á Akureyri árið 1947 af 17 verkalýðsfélugum á Norðurlandi. Og hvaða mál skyldu nú hafa verið tekin til umræðu og verið heitu málin á stofnfundi sambandsins, hjá norðlenskri verkalýðshreyfingu fyrir 70 árum?

Á þessum fyrsta fundi voru mörg mál á dagskrá. Það voru m.a. rædd atvinnumál, kaup – og kjaramál, það var rætt um erlent vinnuafl, sjávarútvegsmál, öryggismál sjómanna og menningar – og fræðslumál.

Þá var samþykkt tillaga þar sem varað var við því að hafa síldarverksmiðjurnar til sýnis hvaða útlendingi sem hafa vildi og einnig var samþykkt tillaga um lokun á útsölum áfengisverslanna á Siglufirði og Akureyri yfir síldveiðitímann.

Hljómar þetta ekki allt nokkuð kunnuglega ? Við getum mátað öll þessi mál við umræðu dagsins í dag, meira að segja brennivínið.

Á þessum árum var lagður grunnur að þeim réttindum sem við njótum í dag því þetta er kynslóðin sem tók fyrstu skóflustunguna að velferðarkerfinu, lagði hornstein að almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðunum okkar, kerfum sem aðrar þjóðir naga sig í handabökin fyrir að hafa ekki fundið upp. Þau bjuggu til samfélag mannréttinda þar sem fram undir þetta hefur þótt sjálfsagt að börn geti menntað sig óháð efnahag foreldranna.

En vinnuaðstaðan, aðbúnaður verkafólks, starfsöryggi, launamismunur kynja á þessum tíma…  myndum við vilja stíga aftur til baka? Ég held ekki.

Víða um heim eru mannréttindi fótum troðin og fyrir mörgum ekki annað en fjarlægur draumur. En við Íslendingar teljum okkur siðaða þjóð og fordæmum  hömlulausa græðgi og þá sem hagnast á neyð annara, hagnast á örbyrgð, mismunun og vonleysi.

Það eru talin grundvallarmannréttindi á Íslandi að hafa þak yfir höfuðið, eiga fyrir salti í grautinn, fyrir lyfjum og lækniskostnaði. En það helst líka í hendur að lágum launum á vinnumarkaði fylgja lágar lífeyrisgreiðslur og velferðarkerfið okkar ágæta er svo götótt að þeir verst settu þurfa að láta sér duga lífeyri sem er undir þeim framfærslumarkmiðum sem við þó setjum okkur. Fyrir þeim er þessi þrenna sem flestum hinum er heilög, saltið, lyfið og læknirinn ekki sjálfsagður hlutur og börnin þeirra njóta lítillra lífsgæða.

Fólk sem verður fyrir því óláni að veikjast og detta út af vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma er því voðinn vís og þrátt fyrir að hafa stritað alla sína hundstíð fellur það ofan í gil og skorninga kerfis sem ekki virkar og situr þar fast.

Það virðist einhvern vegin eins og inngróin nögl í íslenska samfélagsvitund að öryrkjar og eldri borgarar séu þiggjendur og eigi heima á jaðri velferðar samfélagsins okkar. Innan þeirra raða eru margir sem búa ekki einungis við kröpp kjör, heldur  einnig við meiðandi opinbera umræðu í fjölmiðlum og almenningsálit sem telur forkastanlegt ef öryrki á Íslandi getur búið við sæmilega góðar aðstæður.

Hver kannast ekki við myndina sem fylgir gjarnan  fréttaskýringum um málefni eldra fólks ? Mynd af gamalli konu á hjúkrunarheimili, tifandi æðaberum fótum eftir göngunum og meðfylgjandi fréttum um að þjóðin sé að eldast og hvað það kosti okkur mikið.

Að eldast er nokkuð sem enginn getur umflúið og við ættum frekar að fókusa á það að hærri aldri þjóðarinnar fylgir sem betur fer oftast betri heilsa, og við skyldum frekar fagna því að eldra fólk geti lengur verið virkir samfélagsþegnar.

Myndin af gömlu konunni finnst mér vera táknræn og ætti að segja okkur að eigandi þessara þreyttu fóta sé búinn að leggja að baki þrotlausa vinnu til samfélagsins og ávinna sér sjálfsagðan rétt á að njóta hvildarinnar síðasta spölinn í öruggu umhverfi. Þau skulda okkur ekki neitt – það erum við sem skuldum þeim. Og ég hafna þeirri hugmyndafræði að eldra fólk og öryrkjar sé baggi á samfélaginu okkar.

Eftir bankahrunið 2008 hófst íslenska þjóðin handa við að reisa upp langþráð samfélag sem að þessu sinni yrði byggt á réttlæti og jöfnuði. Við spýttum í sigggróna lófana, hertum sultarólina, við bættum á hana gati og hertum betur. Við trúðum því að allir myndu ganga jafnir til verks. Þeir sem minnst höfðu gengu að venju á undan með góðu fordæmi og flestir fylgdu. Þó voru all nokkrir aðilar sem töldu sínum hag betur borgið með því að fela peningna sína í aflandsfélögum. Brot þeirra manna var ekki einungis það að þeir stælu undan skatti, þeir stálu einnig vonum okkar og draumum, þeir brugðust trausti heillar þjóðar.

Og því megum við ekki gleyma.

Þjóðarskútan er aftur komin á kjöl og hefur sem stendur góðan byr í seglin,  gjaldeyristekjur flæða inn í landið, atvinnuleysi mælist hverfandi og því er ekki að neita að hópur þjóðarinnar hefur það býsna gott. Við siglum aftur þöndum seglum og áhöfnin í brúnni segir okkur aftur og enn að hér ríki hagsæld og jöfnuður, góðærið hafi sjaldan eða aldrei verið meira.

Fjármálaráðherra sagði hér á dögunum að hefði íslenskt launafólk sagt upp kjarasamningum 1.mars síðastliðinn  hefðu getað orðið nýjar hamfarir á Íslandi, af mannavöldum. Hann talaði einnig um að taka samtalið og þá ábyrgð sem við bærum öll saman og við ættum að nýta okkur þetta besta góðæri.

Útbelgdur af áðurnefndri ábyrgð nýtti kjaradómur þettta besta góðæri nú fyrir síðustu áramót og útdeildi veglegum launahækkunum til handa æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Við getum víst öll verið sammála um eitt, hvar sem við höfum munstrast á skútuna. Það er að eyði maður um efni fram kemur að skuldadögum. Ef að það er jöfnuður sem felst í því að þeir sem eiga mikið fái meira, en þeir sem minnst eigi fái ennþá minna þá hefur eitthvað misfarist í mínu uppeldi, því að það reikningsdæmi fæ ég á engan hátt skilið.

Já, nú verða sagðar fréttir … en í þetta sinn eru þær af ofurlaunum, af erfiðri stöðu láglaunafólks, öryrkja og eldri borgara, af brostnu heilbrigðis- og menntakerfi, af misnotuðum þjóðarauðæfum, af fótum troðinni náttúru. Af langveiku fullorðnu fólki geymdu á göngum og í geymslum á hátæknideildum Landspítalans. Fréttir af ungu fólki sem getur hvorki leigt eða eignast þak yfir höfuðið og kýs af þeim sökum að flýja land. Áfram skal hoggið í innviðina í nafni niðurskurðar, hagræðingar og einkavæðingar og þær raddir verða æ háværari að þeir sem geti borgað fyrir sig eigi að njóta þess.

Það eru fréttir að þessu tagi sem vekja mér óhug og að mér læðist sá grunur að auðvaldspúkinn á fjósbitanum sé aftur farinn að bæta á sig. Það ætti öllum að vera orðið ljóst að brotni bitinn fellur hann í flórinn og það verðum við sem fáum aftur að verka af honum skítinn.

Nei, við megum engu gleyma – því við vitum manna best að sterkt velferðarkerfi er grundvöllur að lífsgæðum landsmanna og hvaða fórnir hafa þar verið færðar.  Og við skulum  halda því til haga að það kerfi spratt ekki frá misvitrum stjórnmálamönnum, heldur er tilvist þess fyrst og fremst að þakka baráttu kynslóðanna og uppbygging þess hefur kostað launafólk í þessu landi – og er  ætluð fyrir alla þegna þess.

Góðir félagar

 

Lifi  frelsi – lifi  jafnrétti – lifi bræðralag

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á