Byggðastofnun bókar um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn

Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um úthlutun viðbótaraflamarks á Raufarhöfn og undirskriftalista sem borist hafa vegna hennar á fundi sínum föstudaginn 31. mars.  Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundi stjórnarinnar. Fjallað er um afgreiðsluna á heimasíðu stofnunarinnar:

„Stjórn Byggðastofnunar hefur móttekið undirskriftalista vegna úthlutunar sérstaks viðbótar aflamarks á Raufarhöfn með ákvörðun stjórnar stofnunarinnar þann 24. febrúar síðast liðinn.  Þrjár umsóknir bárust um aflamarkið og var ákveðið að ganga til samninga við GPG seafood og samstarfsaðila á Raufarhöfn. Umsóknum Önundar ehf. og Hólmsteins Helgasonar ehf. var hafnað.

Við afgreiðslu umsókna um aflamark Byggðastofnunar á Raufarhöfn hefur stofnunin í hvívetna leitast við að hafa bestu hagsmuni byggðarlagsins í huga og vinnur úr umsóknum í samræmi við skýrar verklagsreglur og viðmið sem birt eru á heimasíðu stofnunarinnar.  Við ráðstöfun aflamarks Byggðastofnunar hefur verið leitast við að ná samstarfi aðila á viðkomandi stöðum um veiðar og vinnslu þess afla sem samningur kveður á um.  Reynt var, í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, að ná samstarfi aðila um þessar viðbótaraflaheimildir.  Ekki reyndist vera grundvöllur fyrir samstarfi umsækjenda og því varð að velja á milli umsókna. 

GPG seafood hefur um árabil rekið bolfiskvinnslu á Raufarhöfn.  Vinna var þó ekki stöðug allt árið, en frá því að fyrst var samið við fyrirtækið um vinnslu 400 þorskígilda aflamarks Byggðastofnunar um áramótin 2013/2014 hefur vinna verið stöðug allt árið um kring auk þess sem starfsmönnum hefur fjölgað og nú eru þar um 30 ársverk í landvinnslu, mun fleiri störf en aðrar umsóknir bera með sér.  Fyrirtækið hefur í einu og öllu staðið við samning sinn við Byggðastofnun um aukna byggðafestu á Raufarhöfn.  Það var mat stofnunarinnar að fengnum framangreindum umsóknum um 100 tonn til viðbótar á Raufarhöfn að mestum byggðaáhrifum með þeirri úthlutun yrði náð með því að treysta enn frekar grundvöll vinnslu GPG á Raufarhöfn.  Þar skiptir ennfremur máli að rekstrarhorfur aðila í bolfiskvinnslu eru erfiðar nú um stundir vegna sterks gengis íslensku krónunnar.

Byggðastofnun er hér eftir sem hingað til reiðubúin að hitta umsækjendur til að gera nánari grein fyrir ákvörðun þessari.“

Deila á