Vilja aukinn byggðakvóta á Raufarhöfn

Málefni Raufarhafnar hafa verið til umræðu innan stjórnar Framsýnar. Fulltrúar félagsins höfðu áður fundað með starfsmönnum og eiganda Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn vegna óánægju þeirra með að Byggðastofnun skyldi ekki sjá ástæðu til að úthluta fyrirtækinu hlutdeild í sérstökum byggðakvóta. Starfsmenn hafa fengið uppsagnarbréf og munu láta af störfum að öllu óbreyttu í vor. Framsýn tekur undir bókun sveitarstjórnar Norðurþings frá 21. mars 2017 þar sem málefni Raufarhafnar voru til umræðu, sérstaklega hvað varðar þennan hluta bókunarinnar:

„Sveitarstjórn Norðurþings skorar á Byggðastofnun að auka þegar í stað við sértækan byggðakvóta ársins 2017 á Raufarhöfn. Fyrir því eru sterk málefnaleg byggðarök. Jafnframt er með þeim hætti mögulegt að bregðast við þeim athugasemdum sem fyrir liggja, m.a. um uppbyggingu heilbrigðrar samkeppni á vinnumarkaði á Raufarhöfn, án þess að rýra hlut annarra burðarása í atvinnulífi staðarins.“

Þá telur félagið skipta máli í þessu sambandi að eigendur Fiskvinnslu Hólmsteins Helgasonar ehf. hafa komið að öðrum verkefnum á Raufarhöfn s.s. með kaupum á fjölbýlishúsi á staðnum sem gera þarf upp til að gera íbúðarhæft auk þess að kaupa Hótel Norðurljós með samstarfsaðilum. Allt þetta skiptir verulega miklu máli fyrir lítið samfélag eins og Raufarhöfn og er ætlað að styrkja búsetuskilyrði á svæðinu. Þessum skoðunum Framsýnar hefur þegar verið komið á framfæri við Byggðastofnun með bréfi.

 

Deila á