Ályktað um starfsöryggi fiskvinnslufólks

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi, fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu miklar umræður um yfirlýsingar forsvarsmanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem hótaði því í fjölmiðlum að til greina kæmi að flytja vinnslu á fiski úr landi. Eftir umræður um málið var stjórn Framsýnar sammála um að senda frá sér ályktun um málið sem er svohljóðandi:

„Framsýn stéttarfélag harmar málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem með hótunum hafa boðað að fyrirtæki í fiskvinnslu séu með til skoðunar að flytja starfsemina úr landi. Það er forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa í mörgum tilfellum greitt sér himin háar arðgreiðslur á undanförnum árum. Nú þegar árar ekki eins vel er stefnan tekin á útlönd með auðlindina sem er sameiginleg eign íslensku þjóðarinnar.

Þessar glórulausu yfirlýsingar koma í kjölfar verkfalls sjómanna sem kostaði fiskvinnslufólk víða um land atvinnumissi og verulegt tekjutap.

 Fiskvinnslufyrirtækin halda áfram að ögra byggðarlögunum í landinu með því að boða frekari flutning á störfum milli landshluta og/eða byggðalaga.

Alþingi getur ekki lengur setið aðgerðarlaust hjá við þessar aðstæður. Yfirlýsingar sem þessar kalla á tafalausar aðgerðir og  endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni með það að markmiði að tryggja að handhafar kvótans geti ekki komist upp með svona vinnubrögð.“

 

 

 

Deila á