Karlakórinn Hreimur stóð fyrir vorfagnaði á Ýdölum síðasta laugardagskvöld og var fullt út úr dyrum. Að venju var um að ræða frábæra skemmtun og hefur kórinn sjaldan eða aldrei verið betri en um þessar mundir. Stjórnandi kórsins er Steinþór Þráinsson og undirleikari Steinunn Halldórsdóttir. Tveir stórsöngvarar komu fljúgandi norður til að krydda upp á kvöldið. Það voru þau Gissur Páll Gissurarson og Margrét Eir. Fagnaðarstjóri kvöldsins klikkaði ekki, Viðar Guðmundsson bóndi á Ströndum. Ekki má gleyma stórbrotnu veislukaffi en styrkja þurfti veisluborðin sérstaklega svo þau gæfu sig ekki undan þungum hnallþórum og öðrum kræsingum. Eftir frábæra kvöldstund tóku félagarnir Frímann og Hafliði við og spiluðu eins og enginn væri morgundagurinn fram eftir nóttu. Ekki fer sögum að því hvenær dansleiknum lauk um nóttina. Takk fyrir frábæra skemmtun.