Hvetja ASÍ til að taka upp til umræðu málefni eftirlaunafólks og öryrkja

 

Framsýn sendi um helgina frá sér bréf til forseta ASÍ þar sem félagið beinir þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp til umræðu á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Bæði hvað varðar almenna stöðu í þjóðfélaginu og eins gagnvart aðild þeirra að stéttarfélögum eftir starfslok á vinnumarkaði. Eins og sjá má á meðfylgjandi bréfi kallar Framsýn eftir umræðu um stöðu þessara hópa. Sjá bréfið:

 

Alþýðusamband Íslands
Hr. Gylfi Arnbjörnsson
Guðrúnartúni 1
105 Reykjavík 

Húsavík 19. mars 2017

Varðar stöðu aldraðra og öryrkja

Framsýn, stéttarfélag vill beina þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að málefni eftirlaunafólks og öryrkja verði tekin upp á vegum sambandsins. Málefni þessara hópa hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið. Fram hefur komið að þeir telja sig ekki búa við réttlæti og virðingu eins og þeim ber í íslensku þjóðfélagi. Fyrir liggur að stór hluti þessa fólks var eða er greiðandi í stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands.  Mikilvægt er að Alþýðusambandið standi vörð um réttindi og réttindabaráttu þessa fjölmenna hóps og berjist fyrir þeirra baráttumálum í samráði við þeirra hagsmunasamtök.

Það segir töluvert um stöðu þessara hópa að fjölmennasti fundur sem Framsýn hefur staðið fyrir á síðustu árum var laugardaginn 4. mars 2017 þegar félagið stóð fyrir baráttufundi um málefni eftirlaunafólks á Fosshótel Húsavík. Um 130 gestir komu á fundinn og baráttuandinn sveif þar yfir vötnum.

Jafnframt telur Framsýn mikilvægt að Alþýðusambandið stuðli að því að aðildarfélög sambandsins samræmi reglur varðandi réttindi þessara  hópa innan stéttarfélaganna, það er öryrkja og eftirlaunafólks. Í dag er það þannig að réttindin eru mjög mismunandi milli félaganna. Sé ekki vilji til þess að samræma reglurnar milli félaganna er ekki síður mikilvægt að taka þessi mál upp til umræðu og kalla eftir viðhorfi stéttarfélaganna varðandi stöðu þeirra félagsmanna sem lokið hafa störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

Framsýn óskar eftir skriflegu svari frá Alþýðusambandi Íslands við þessu erindi þar sem félagið hefur ákveðið að taka málefni þessara hópa upp á næsta aðalfundi félagsins með það að markmiði að tryggja sem best stöðu þessara hópa innan félagsins. Standi ekki til að taka þessi mál almennt upp á vegum Alþýðusambandsins mun félagið klára þessa vinnu í heimahéraði með hagsmuni eftirlaunafólks og öryrkja að leiðarljósi.

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

_____________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Deila á