Ósk Helgadóttir varaformðaur Framsýnar opnaði fundinn sem félagið stóð fyrir á Fosshótel Húsavík í gær um málefni eftirlaunafólks. Hér má lesa ávarpið hennar.
Góðir gestir
Mér er það afar ljúft að standa hér í dag og fá að bjóða ykkur velkomin til þessa fundar sem er sá fyrsti í fyrirhugaðri fundarröð sem við Framsýnarfólk höfum áætlað á næstu vikum, en framundan hjá okkur eru einnig fundir um atvinnumál, landbúnaðarmál og efnahagsmál.
Mál málanna í dag er sannarlega þarft að taka til umræðu. Það eru starfslok og önnur málefni eldra fólks. Þjóðin eldist, um það verður ekki deilt, en ríflega 12 % þjóðarinnar er nú 67 ára eða eldri og fer það hlutfall stöðugt hækkandi.
Á síðustu áratugum hefur svo ótal margt breyst sem gerir það að verkum að fólk lifir almennt lengur. Við búum til dæmis í dag í betra húsnæði, höfum betra atlæti hvað varðar fæði og klæði, auk þess sem við vinnum styttri vinnutíma en áður tíðkaðist. Við höfum læknisþjónustu fyrir allan almenning og heilbrigðiskerfið okkar ætti að geta verið það besta í heimi. Erum upplýst þjóð með hátt menntastig og aukin menntun auðveldar okkur að ná fótfestu í flóknum og breytilegum heimi. Við erum rík.
Nokkur þúsund manns innan verkalýðshreyfingarinnar eru komin „út af vinnumarkaði“ eða á mörkum þess sökum aldurs. Við nefnum þennan hóp ævinlega á baráttudegi verkalýðsins, þann 1. maí og tölum þá með mikilli virðingu um „þau sem mörkuðu sporin með blóði sínu, svita og tárum. Eldra fólk er einmitt fólkið sem fjölmennir á hátíðarhöldin 1. maí, kannski af því að það voru þau sem greiddu þann fórnarkostnað sem þurfti til að byggja upp hið íslenska velferðarkerfi sem við búum við í dag. Og þau skilja gildi samstöðunnar.
Stéttarfélögin í landinu hafa skyldum að gegna gagnvart þessum hópi ekki síður en öðrum félagsmönnum, og stéttarfélög hafa vald og geta nýtt það til að berjast fyrir jafnrétti og gegn hvers kyns óréttlæti í samfélaginu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki eingöngu um launamun kynjanna.
Við hjá Framsýn viljum vekja fólk til umhugsunar á þessum málefnum, þau eru okkur öllum mikilvæg, enda komumst við flest væntanlega einhvern tímann á þennan stað í lífinu.
Við höfum boðið til okkar í dag öndvegisfólki til að ræða þessi mál við okkur. Þar ber fyrstan að nefna Helga Pétursson tónlistarmann, sem vakið hefur athygli fyrir skeleggan málflutning og farið fyrir baráttusamtökum eftirlaunafólks sem nefnist Grái herinn. Samtökin berjast fyrir virðingu og réttlæti, þau hafa verið ötul að vekja athygli á kjörum eldra fólks og vilja stuðla að hugarfarsbreytingu í garð þessa aldurshóps.
María Axfjörð er hér á heimavelli, Húsvíkingur að upplagi og hana þekkja eflaust margir hér inni. María ætlar að segja okkur frá sinni upplifun af því að missa vinnuna, orðin fullorðin. Hún segir okkur frá því hvernig það er að vera fullorðin kona í atvinnuleit og ræðir atvinnumöguleikana sem fólk á þessum aldri hefur, en atvinnurekendur virðast ekki bíða í röðum eftir því að ráða fullorðið fólk til starfa.
Það er engin ástæða til þess að leggja árar í bát eingöngu fyrir það að árin færast yfir. Öflugt starf er unnið innan félaga eldri borgara í Þingeyjarsýslum, en þau eru nokkur. Eitt þessara félaga er starfandi hér í bæ. Anna Sigrún Mikaelsdóttir er formaður Félags eldri borgara á Húsavík. Hún ætlar að segja okkur frá starfsemi félagsins sem hefur verið mjög kraftmikið á undanförnum mánuðum.
Við tökum fundarhlé á milli dagskráliða þegar fer að líða á og bjóðum þá upp á veitingar, hressum okkur á súpu og brauði. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar mun leiða okkur áfram hér og halda utan um fundarstjórnina og ég efast ekki um að við komum til með að eiga hér saman ánægjulega stund.
En áður en ég kasta boltanum til Aðalsteins langar mig að kynna upphafsatriðið, en þar er fólk í yngri kantinum, en þau hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir tónlistarflutning sinn og gert mikla lukku hvar sem þau hafa komið. Í Þingeyjarskóla í Aðaldal er einstök menning, eiginlega fjölmenning. Þar er spilað á hljóðfæri sem ég hef fyrir víst að séu ættuð frá Zimbabwe og suðurhluta Afríku, ásláttarhljóðfærið Marimba og fleiri sem ég reyni ekki einu sinni að nefna. Það væri fróðlegt að vita hvaða menningarstraumar báru Marimbatónlistina frá Afríku í litla þingeyska sveitaskólann, en við getum komist að því síðar. Það geislar af þessum ungu og efnilegu tónlistarmönnum gleðin og hamingjan, og þau eru samstíga og skemmtileg í flutningi sínum. Við skulum taka vel á móti þeim. Krakkar mínir, gerið svo vel.