Um sjö milljónir greiddar í verkfallsbætur

Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í sjö vikur en það hófst 14. desember. Innan Framsýnar eru um 30 sjómenn sem falla beint undir þann kjarasamning sem deilurnar snúast upp, það er kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Verkfallið nær ekki til sjómanna á hvalaskoðunarbátum þar sem Framsýn er með kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna þessara starfa um borð.

Þá er eitthvað um að vélstjórar og yfirmenn á fiskiskipum hafi valið að greiða til Framsýnar af sínum launum. Þessir hópar eru ekki í verfalli þar sem þeir falla ekki undir kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem Framsýn á aðild að. Þessum sjómönnum innan Framsýnar hefur verið haldið frá allri umræðu, ákvörðunartöku og atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls eða afgreiðslu á kjarasamningum þar sem þeir eru ekki aðilar að deilunni. Því miður er deilan í miklum hnút.

Miðað við núverandi stöðu, það er að undirmenn eru í boðuðu verkfalli og þar sem verkbann hefur verið sett á vélstjóra eru þessir hópar launalausir hjá viðkomandi útgerðum. Hins vegar eiga stýrimenn og skipstjórar fullan  rétt á því að halda kauptryggingu þar sem þeir eru ekki í verkfalli.

Þess má geta að Framsýn greiðir sjómönnum í verkfalli kr. 278.671,- á mánuði. Verkfallssjóður félagsins er sterkur og þolir langt verkfall sem vonandi verður ekki. Krafa Framsýnar er að útgerðarmenn gangi að hófværum kröfum sjómanna svo hægt verði að hefja veiðar á ný.

batar0316 029

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðeins undirmenn innan Framsýnar eru í verkfalli. Verkbann hefur verið sett á vélstjóra en yfirmenn, stýrimenn og skipstjórar eru ekki í verkfalli og eiga því að vera á tryggingu hjá viðkomandi útgerðum. Sjómenn á hvalaskoðunarbátum eru ekki í verkfalli.

 

Deila á