SA svarar fyrir sig: Telja sig standa fyrir ábyrgt atvinnulíf

Samtök atvinnulífsins vísa á bug alhæfingum verkalýðshreyfingarinnar um almenna brotastarfsemi, m.a. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, út frá þeim afmörkuðu tilvikum sem upp hafa komið að undanförnu. SA gagnrýna þau harðlega og vinna heilshugar með stjórnvöldum við að stemma stigu við slíkum brotum.
Samskipti verkalýðshreyfingarinnar við Samtök atvinnulífsins um réttindamál launafólks hafa hins vegar nær eingöngu verið með upphrópunum í fjölmiðlum. Engin tölfræði hefur verið lögð fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um umfang eða alvarleika brota á vinnumarkaði til að reyna að átta sig á raunverulegri stöðu mála.
Samtök atvinnulífsins sinna ekki opinberu eftirliti og það er ekki hlutverk samtakanna. Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra og Vinnueftirlitinu ásamt fjölmörgum fleiri eftirlitsaðilum er fyllilega treystandi til að hafa eftirlit með starfandi fyrirtækjum. Verkalýðsfélög gegna hins vegar því eftirlitshlutverki að fylgjast með því að á réttindum félagsmanna þeirra sé ekki brotið og ber að grípa til viðeigandi ráðstafana komi slík mál upp. Ekki er nein ástæða til þess að Samtök atvinnulífsins taki þátt í þessari hagsmunagæslu verkalýðsfélaga fyrir hönd félagsmanna sinna.
Árið 2010 var þó ákveðið að gera tímabundið átak í þessum efnum milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um framkvæmd eftirlits á vinnustöðum í framhaldi af kjarasamningi aðila um upptöku vinnustaðaskírteina í tilteknum atvinnugreinum. Samtök atvinnulífsins réðu tvo starfsmenn til að sinna þessu verkefni einvörðungu og vörðu tugum milljóna króna til þess á árabilinu 2011-2013. Á þessum þremur árum voru 80 prósent allra eftirlitsferða á vegum SA og afgangurinn af hálfu þeirra fjölmörgu starfsmanna verkalýðsfélaga um allt land sem falið hafði verið að sinna verkefninu.
Ásakanir Framsýnar-stéttarfélags í dag um að Samtök atvinnulífsins láti sig þessi mál ekki varða eru bæði marklausar og ómaklegar. Samtök atvinnulífsins eru ávallt reiðubúin til uppbyggilegs samstarfs við verkalýðshreyfinguna um réttindamál á vinnumarkaði og baráttu gegn brotastarfsemi.

Deila á