Krambúðin opnaði í dag á Garðarsbraut 5 í því húsnæði sem síðast hýsti verslunina Kaskó. Sennilega er þetta rótgrónasta verslunarhúsnæði Húsavíkur en eins og nær allir vita var Kaupfélag Þingeyinga með sínar aðalstöðvar þarna á sínum tíma og rak þar matvöruverslun og fleira.
Krambúðin verður með aðrar áherslur en Kaskó. Meiri áhersla verður á þjónustu við ferðamenn og uppfylla áherslur nærumhverfisins með löngum opnunartíma og skyndilausnum í mat, svo sem tilbúna rétti, kaffi og „bakað á staðnum”.
Fjölmenni var við opnunina og þar bauð Samkaup upp á veitingar í tilefni dagsins. Auk þess endurnýjaði Samkaup styrktarsamning sinn við Knattspyrnudeild Völsungs við þetta sama tækifæri.
Myndir frá opnuninni má sjá hér að neðan.