Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga var haldinn í dag í Skúlagarði. Auk venjulegra aðalfundarstarfa stóð Atvinnuþróunarfélagið fyrir málþingi um jarðhitaauðlindir við Öxarfjörð og fjölnýtingu jarðhita sem tókst með miklum ágætum. Frá árinu 2002 hefur verið hefð fyrir því að veita hvatningarverðlaun á aðalfundi félagsins. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í héraðinu til nýsköpunar og árangurs í rekstri með því að verðlauna það sem vel er gert á þessu sviði. Í dag var komið að því að veita Sælusápum viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf og vandaða uppbyggingu framleiðslufyrirtækis sem eykur verðmæti hráefna af svæðinu. Fyrirtækið Sælusápur – Lón 2 ehf var stofnað á vordögum 2008 af Guðríði Baldvinsdóttur og eiginmanni hennar Einari Ófeigi Björnssyni. Guðríður hefur stundað sápugerð til heimanota um nokkurra ára skeið og langaði að kynna handgerðar sápur fyrir fleiri en vinum og ættingjum. Hún tók því þátt í Vaxtarsprotum á vegum Impru-nýsköpunarmiðstöðvar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og stofnaði Sælusápur- Lón 2 ehf í kjölfarið. Það er staðsett við heimili hennar í Lóni í Kelduhverfi.
Stofnandinn, Guðríður (Gugga ) er sauðfjárbóndi og skógfræðingur í Lóni í Kelduhverfi. Hún og eiginmaður hennar, Einar Ófeigur Björnsson, búa með á fimmta hundrað fjár í Lóni. Í Lóni er einnig æðarvarp, skóg- og skjólbeltarækt ásamt ýmiskonar verktakavinnu. Hér er hún með Reinhard framkvæmdastjóra og Sif stjórnarformanni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.