Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að boðar til fundar í byrjun sumars þar sem ungu fólki innan hreyfingarinnar verður gefið færi á að hittast, fræðast og skemmta sér saman í þeim tilgangi að efla ungt fólk félagslega.
Staðsetning: Fundurinn verður haldinn í húsnæði Verkalýðsfélags Grindavíkur að Víkurbraut 46. Búið er að panta gistingu fyrir hópinn að Geo Hotel Grindavík, Víkurbraut 58.
Tímasetning: Fundurinn er haldinn dagana 1. og 2. júní. Dagskráin hefst með hádegisverði kl. 12 miðvikudaginn 1. júní. Fundi unga fólksins lýkur formlega klukkan 12 fimmtudaginn 2. júní en þá verður boðið uppá hádegismat með formönnum og varaformönnum aðildarfélaga SGS og síðan er óskað eftir því að fulltrúar úr hópi unga fólksins kynni afrakstur fundarins í upphafi formannafundar SGS sem hefst kl. 13:30.
Fulltrúar á fundinum: Hvert aðildarfélag má senda tvo fulltrúa, einn af hvoru kyni, 30 ára eða yngri.
Kostnaður: Kostnaður við ferðir og uppihald er greitt af hverju félagi fyrir sig en Starfsgreinasambandið kostar fyrirlesara og kvöldmat.
Tilgangur og markmið: Tilgangurinn er að ungt fólk kynnist hvert öðru og hreyfingunni betur, njóti þess að vera saman og verði áhugasöm um áframhaldandi starf innan hreyfingarinnar. Ef vel gengur verður leikurinn endurtekinn.
Dagskrá: Dagskráin verður sambland af kynningu á hverjum þátttakanda, námskeið í samningatækni, fundasköpum, að koma sér á framfæri og hvernig hægt er að hafa áhrif innan hreyfingarinnar. Þá er gert ráð fyrir að fundurinn komi sér saman um skilaboð til forystu SGS um áherslur ungs fólks.
Fulltrúar Framsýnar: Framsýn mun senda tvo fullrúa á fundinn og greiða vinnutap og allan kostnað sem fulltrúar félagsins verða fyrir er tengist fundinum. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna hafi þeir áhuga fyrir því að vera fulltrúar Framsýnar á fundinum. Hægt er að senda skilaboð á kuti@framsyn.is