Skrifstofa stéttarfélaganna auglýsti nýlega eftir starfsmanni í eftirlits- og þjónustustörf á vegum félaganna með sérstaka áherslu á vinnustaðaeftirlit. Alls sóttu 13 umsækjendur um starfið. Eftir yfirferð hefur Fulltrúaráð stéttarfélaganna sem skipað er fulltrúum þeirra félaga sem aðild eiga að skrifstofunni; Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur samþykkt að ráða Aðalstein Jóhannes Halldórsson í starfið og var gengið frá ráðningarsamningi við hann í morgun. Aðalsteinn lauk BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla árið 2010. Áður lauk hann stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Húsavík árið 1999. Auk þess hefur hann klárað námskeið í bókhaldi. Þá býr Aðalsteinn yfir mjög góðri tölvuþekkingu og hefur gott vald á íslensku og ensku bæði í ræðu og riti. Aðalsteinn sat í sveitarstjórn Norðurþings kjörtímabilið 2006-2010 ásamt því að sitja í nokkrum nefndum sveitarfélagsins eða fyrir hönd þess á þessu tímabili. Hann starfaði sem sérfræðingur á Þekkingarneti Þingeyinga á árunum 2008-2013. Auk þess hefur hann starfað við ýmiskonar störf í gegnum tíðina, til dæmis byggingarvinnu, afgreiðslustörf og landbúnaðarstörf. Aðalsteinn mun formlega hefja störf miðvikudaginn 16. mars 2016.
Stéttarfélögin vilja nota tækifærið og þakka öllum þeim sem sóttu um starfið fyrir áhugan fyrir starfinu um leið og Aðalsteinn Jóhannes er boðinn velkominn til starfa.
Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson hefur verið ráðinn í starf eftirlits- og þjónustufulltrúa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.