Veruleg aukning í flugi til Húsavíkur – félagsmenn sparað sér um 50 milljónir

Veruleg aukning hefur orðið á flugi til Húsavíkur milli ára. Í febrúar mánuði 2015 fóru 674 farþegar um Húsavíkurflugvöll á móti 1518 farþegum í febrúar 2016. Um er að ræða aukningu upp á 125%. Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur 15. apríl 2012. Á árunum 2013 og 2014 fóru um 9.800 farþegar um völlinn á ársgrundvelli. Á árinu 2015 fjölgaði farþegum upp í tæplega 12.000 farþega. Í sambandi við fjölgun farþega um völlinn má geta þess að Framsýn, gerði fyrst stéttarfélaga, samning við flugfélagið um sérkjör fyrir félagsmenn. Samningur þess efnis var undirritaður 21. nóvember 2013. Frá þeim tíma hafa félagsmenn stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna flogið 7.500 flugferðir sem sparað hefur þeim um 50 milljónir frá miðlungs fargjaldi um leið og sætanýting í flugvélum Ernis hefur orðið mun betri enda jafngilda 7.500 flugmiðar 395 full bókuðum flugferðum m.v. stærð flugvélanna. Í dag er flogið flesta daga, allt upp í þrjár ferðir á dag. Þá er ljóst að framkvæmdirnar á svæðinu er tengjast uppbyggingunni á Bakka auk sívaxandi ferðaþjónustu kemur til með að styrkja flugumferð um Húsavíkurflugvöll enn frekar sem er afar ánægjulegt enda mikil lífsgæði fólgin í því að hafa aðgengi að flugsamgöngum í heimahéraði. Fyrir liggur að á árinu 2016 verður slegið met í farþegafjölda um Húsavíkurflugvöll frá þeim tíma sem Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafa sparað sér um 50 milljónir á tveimur árum með sérkjörum á flugmiðum stéttarfélaganna milli Húsavíkur og Reykjavíkur með Flugfélaginu Erni. Óhætt er að segja að þetta sé kjarabót í lagi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á