Formannafundur LÍV fór fram í Reykjavík sl. föstudag 26.febr. Til fundarins mættu formenn og/eða starfsmenn stéttarfélaga alls staðar af landinu. Af hálfu Framsýnar, Deildar verslunar- og skrifstofufólks, sóttu Jóna Matthíasdóttir og Jónína Hermannsdóttir fundinn.
Selma Kristjánsdóttir hélt góða kynningu á starfsemi Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks en vert er að minna á nokkrar breytingar sem hafa tekið gildi á síðustu mánuðum. Má þar m.a. nefna að nú er hægt að fá endurgreitt 75% af námskostnaði og styrkupphæð getur numið allt að 90.000 krónur á ári, að uppfylltum skilyrðum styrkveitingar. Allar upplýsingar má finna á vef sjóðsins www.starfsmennt.is
Elías G. Magnússon fór ítarlega yfir nýsamþykktan kjarasamning VR/LÍV og SA og voru góðar umræður meðal fundarmanna um breytingar sem og önnur ákvæði samningsins. Vert er að minna á breytingu varðandi laun starfsmanna undir 20 ára aldri en laun 18 og 19 ára eru 95% af byrjunarlaunum 20 ára. Breytingin felst í því að 18 og 19 ára starfsmenn fara beint á 20 ára taxta ef þeir hafa náð 6 mánuðum og 700 klst. í starfsgrein frá 16 ára aldri. Við 20 ára aldur er síðan starfsreynslan metin að nýju, til framgangs í töxtum. Laun ungmenna miðast nú við 20 ára aldur(hlutfall) í stað 18 ára aldurs áður. Útfærslur launa vegna þessa aldurs getur verið flókinn og mikilvægt að ungmenni, sem og aðrir, haldi utan um vinnutíma sína og beri saman við launaseðla. Þá er gott að minna á nýt tapp, Klukk, sem hentar vel til þess.
Við viljum einnig minna á að gera skriflega ráðningarsamninga og að starfsmannaviðtal er viðurkennt af SA sem eðlilegur hluti vinnusambands en starfsmaður á rétt á viðtali einu sinni á ári. Þar skal ræða um helstu verkefni í starfi, starfið sjálf og vinnuálag, þekkingu starfsmanns, fjölda verkefna, verkefnastjórnun og ánægju í starfi, starfsumhverfi, samskipti á vinnustað, laun, starfsþróun og önnur starfskjör.