Nútíma þrælahald á Íslandi

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur karlmaður verið í haldi lögreglu vegna gruns um mansal í Vík í Mýrdal. Fjölmennt lið lögreglumanna tók þátt í aðgerðum í Vík vegna málsins. Mansalsteymi höfuðborgarsvæðisins var fengið til aðstoðaðar og vöktu aðgerðirnar athygli á landsvísu. Lögreglumenn leituðu þolenda mansals sem þeir höfðu fengið ábendingar um að væru nýttir sem þrælar til vinnu. Tvær konur fundust og hafa stöðu þolenda mansals samkvæmt áreiðanlegum heimildum fjölmiðla sem fjallað hafa um málið.

Því miður virðist sem svona ljótum málum sé að fjölga töluvert á landinu er tengist sérstaklega þeim uppgangi sem er í þjóðfélaginu, ekki síst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fylgjast grand með þróun mála á félagssvæði stéttarfélaganna. Svona ljót mál hafa sem betur fer ekki komið upp. Félögin hafa þó þurft að koma að kynferðismálum og í ákveðnum tilfellum orðið að fela fólk tímabundið vegna ofsókna á vinnustöðum, það er frá yfirmönnum.

Eftirlit stéttarfélaganna hefur aðallega einkennst að því að fylgjast með aðbúnaði og launakjörum starfsmanna. Í eftirlitsferðum félaganna á vinnustaði frá sumrinu 2015 hafa komið upp rúmlega 60 mál fyrir einstaka starfsmenn er tengjast erlendum fyrirtækjum sem starfa í skjóli íslenskra fyrirtækja. Í öllum tilvikum var um að ræða að starfsmennirnir fengu ekki greitt laun eftir íslenskum lágmarkskjörum. Málin eru nú vonandi upplýst en viðkomandi fyrirtæki sem áttu í hlut og starfa í byggingar- og matvælaiðnaði báru við mistökum. Ætlunin hefði ekki verið að hlunnfara erlendu starfsmennina. Reyndar eru þetta stöðluð viðbrögð þegar stéttarfélögin gera athugasemdir við kjarasamningsbrot fyrirtækja gagnvart erlendum starfsmönnum, það er að um mistök sé um að ræða og þau verði leiðrétt.

Reyndar eru dæmi um að fyrirtæki neiti því að verða við kröfu stéttarfélaganna um að leiðrétta kjör starfsmanna og eru þá þeim málum vísað til lögfræðinga til innheimtu.

Þeir sem lesa þessa umfjöllun, taka væntanlega eftir því, að talað er um að málin séu væntanlega upplýst. Hér er átt við að oft reynist erfitt að fylgjast með því hvort erlendu fyrirtækin standi í raun við að gera upp við starfsmenn samkvæmt íslenskum kjarasamningum enn allt er gert að hálfu stéttarfélaganna til að fylgja því eftir.

Annað sem er vaxandi vandamál og reyndar mjög alvarlegt. Það er að fyrirtæki, ekki síst í landbúnaði og ferðaþjónustu hafa í auknum mæli auglýst eftir erlendum sjálfboðaliðum til starfa, það er upp á fæði og húsnæði. Þannig eru fyrirtækin að koma sér hjá því að greiða kjarasamningsbundin laun og þar með skatta og aðrar skyldur í ríkisjóð. Þessi fyrirtæki halda eftir launum starfsmanna og styrkja þannig samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum alvöru fyrirtækjum sem fara að lögum og eru í samkeppni við fyrirtækin sem sniðganga lög og reglur. Slíkt á ekki að líðast enda grafa undirboðin undan eðlilegum rekstri fyrrirtækja.

Því miður má sjá fyrirtæki á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem fara þessa leið, það er að auglýsa eftir sjálfboðaliðum til starfa. Félögin hafa þegar gert athugasemdir við vinnulag þessara aðila þar sem slíkt er ólöglegt enda um efnahagslega starfsemi að ræða. Þá eru félögin, Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar aðilar að verkefni á vegum Alþýðusambands Íslands, „Einn réttur ekkert svindl“ sem ætlað er að sporna við þessari alvarlegu þróun.

Á þessum síðum má sjá fyrirtæki sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum til starfa: www.workaway.info og www.helpx.net.

Það er alveg ljóst að gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiss konar ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiskonar blandaðra starfa á sveitabýlum og/eða við bændagistingu.

Rétt er að taka fram að fæði og húsnæði geta verið hluti af endurgjaldi fyrir vinnu. Í sumum kjarasamningum er tiltekið að starfsmaður skuli fá fæði og húsnæði sér að kostnaðarlausu auk kjarasamningsbundinna launa. Í öðrum samningum er heimild atvinnurekanda til að draga af kjarasamningsbundnum launum starfsmanns vegna fæðis og húsnæðis sem honum er lagt til en þó með miklum takmörkunum. Forsendan er alltaf sú að kjarasamningum sé fylgt. Það þýðir að ráðningarsamningur sé gerður, lágmarkslaun að minnsta kosti greidd og gefinn út launaseðill þar sem fram koma laun og önnur starfskjör og heimilaðir frádráttarliðir. Allt endurgjald fyrir vinnu skal síðan telja fram til skatts og skila hinu opinbera, stéttarfélögum og sjóðum því sem þeirra er. Ólaunuð vinnu við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði. ASÍ hefur óskað eftir ákvarðandi bréfi frá RSK um þetta efni.
Ólaunuð vinna borgara frá löndum utan EES við efnahagslega starfsemi þýðir að viðkomandi fyrirtæki gerast brotleg við lög um atvinnuréttindi útlendinga og baka sér refsiábyrgð í leiðinni.

Úrræði s.s. á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og samninga ASÍ og SA um vinnustaðaeftirlit og útlendinga á íslenskum vinnumarkaði færa stéttarfélögum starfsmanna sem hagsmuna eiga að gæta fjölmörg úrræði til að takmarka undirboð á vinnumarkaði með ólaunaðri vinnu.

Einstaklingar sem „ráða sig“ í ólaunaða vinnu njóta ekki tryggingaverndar eins og kjarasamningar kveða á um og gagnvart sjúkra- og almannatryggingakerfinu njóta mjög takmarkaðra réttinda. Almennt má álykta að viðkomandi einstaklingar njóti mjög takmarkaðrar tryggingaverndar.

ASÍ og aðildarsamtök þess, þar á meðal stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, munu ekki þola undirboð á vinnumarkaði og brot sem felast í ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Jafnframt hefur ASÍ kallað eftir samstarfi við stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins um að uppræta slíka brotastarfsemi.

Til að bregðast við hertu eftirliti verður ráðinn sérstakur starfsmaður í verkefnið á næstu dögum. Umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag. Undirboð og þar með kjarasamningsbrot verða ekki liðin á félagssvæði stéttarfélaganna.

Deila á