Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn fimmtudaginn 28. janúar. Þrátt fyrir dræma mætingu voru góðar umræður um kjaramál, verslun og þjónustu á Húsavík sem var umræðuefni kvöldsins. Gestur fundarins var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem fór yfir nýjan kjarasamning sem nýverið var undirritaður og kemur til atkvæðagreiðslu í febrúar. Hann kynnti einnig fyrirhugaðar breytingar Samkaupa á Húsavík en á vordögum munu þeir opna endurbættar verslanir undir merkjum Nettó (áður Úrval) og Kjörbúðar (áður Kaskó)
Þá fóru fram stjórnarkjör og er stjórn deildarinnar þannig skipuð: Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir og Birgitta Bjarney Svavarsdóttir og í varastjórn sitja Emilía Aðalsteinsdóttir og Þórunn Ágústa Kristjánsdóttir.
Flottar konur, formaður og varaformaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, Jóna og Jónína. Ánægðar með kjörið.
Jóna formaður gerði grein fyrir skýrslu stjórnar.
Nína var fundarstjóri og keyrði fundinn áfram.
Gestur fundarins, Aðalsteinn Árni, fór yfir stöðu kjaramála og gerði fundarmönnum grein fyrir áformum Samkaupa að gera verulegar breytingar á verslunarhúsnæði keðjunnar á Húsavík sem almenn ánægja er með.
Menn voru nokkuð ánægðir með fundinn eins og þessi mynd ber með sér.