Framsýn mótmælir hækkunum Kjararáðs

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um úrskurð Kjararáðs sem að mati félagsins meitlar endanlega óréttlætið í stein er varðar kjör fólks á íslenskum vinnumarkaði.

Ályktun
Um úrskurð Kjararáðs

„Framsýn, stéttarfélag mótmælir harðlega þeirri stefnu Kjararáðs að skara sífellt eld að köku þeirra sem mest hafa á meðan hópar fólks hér á landi eiga vart til hnífs né skeiðar.

Undanfarna mánuði hafa laun opinberra starfsmanna sem falla undir úrskurð Kjararáðs hækkað mun meira en annarra hópa í þjóðfélaginu. Nú síðast úrskurðaði ráðið um launahækkanir til handa dómurum upp á hundruðir þúsunda á mánuði og meitlaði þar endanlega óréttlætið í stein. Hvað Kjararáði gengur til með þessum gríðarlegu hækkunum er algjörlega óráðin gáta, enda engan veginn í takt við aðrar launahækkanir í landinu.

Um er að ræða met í ójöfnuði í skjóli valdahafa þjóðarinnar sem leiðist ekki að hæla eigin verkum og líkja þeim við Íslands- og heimsmet. Ákvörðun Kjararáðs er vissulega heimsmet, um það verður ekki deilt. En hver ber ábyrgð á Kjararáði?

Meðan vaxtaokur tröllríður þjóðfélaginu verðlaunar Kjararáð m.a. bankastjóra Landsbankans með rúmlega 565 þúsund króna hækkun á mánuði, sem jafngildir mánaðarhækkun til 23 verkamanna samkvæmt kjarasamningi Starfsgreina-sambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Bankastjóri Landsbankans talar fyrir blússandi uppgangi í þjóðfélaginu á sama tíma og misskiptingin í landinu eykst stöðugt. En það ríkir ekki almennt góðæri hjá verkafólki sem fékk um 25 þúsund króna launahækkun í síðustu kjarasamningum. Það ríkir heldur ekki góðæri hjá öldruðum, öryrkjum og atvinnuleitendum. Menn sem halda öðru fram eru ekki í takt við þjóðarsálina.

Þögn Seðlabanka Íslands um þessar mundir er athyglisverð. Hefur Seðlabankastjóri ekki áhyggjur af því að úrskurður Kjararáðs kalli á aukna verðbólgu og óstöðugleika? Ekki skortir á yfirlýsingar bankans þegar verkafólk á í hlut, fólkið sem skapar þann gjaldeyri sem efnahagslífið og þar með velferðin á Íslandi byggir á.“

Deila á