Sjómenn í gíslingu útvegsmanna

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar skrifar áhugaverða grein í sjávarútvegsblaðið Sjávarafl sem kom út  nú fyrir jólin. Hér má lesa greinina.

Kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna hafa nú verið lausir í fimm ár, sem er auðvitað gjörsamlega óviðunandi ástand fyrir sjómenn. Og hvernig sem á því stendur, virðast menn ekki sjá til lands í þessari deilu. Þeir sem fylgst hafa með samningamálum sjómanna, segja að varla sé hægt að halda því fram að alvara hafi verið við samningaborðið síðan 2011, þótt fundað hafi verið af og til.

Á sama tíma og ekki tekst að ganga frá kjarasamningum, greina fjölmiðlar frá methagnaði útgerðarinnar og flestir aðalfundir fyrirtækjanna samþykkja að greiða eigendum myndarlegan arð. Á þessum fimm árum sem samningar hafa verið lausir, hefur sannarlega árað ágætlega í sjávarútvegi. Ég segi ágætlega, örugglega mætti hafa sterkari lýsingarorð um afkomu greinarinnar. Á sama tíma og eigendurnir samþykkja stjarnfræðilegan arð, tala þeir um nauðsyn þess að sjómenn taki aukinn þátt í ýmsum kostnaðarliðum útgerðarinnar. Þátttaka sjómanna í kostnaðarliðum virðist því vera deilan endalausa og vera forsendan fyrir útgerð á Íslandi ef marka má áróður útgerðarmanna.

Kauptrygging, sjómannaafsláttur og veiðigjöld
Ekki bætir út skák að kauptryggingu sjómanna var síðast breytt í maí árið 2014. Flestar atvinnugreinar hafa gengið frá nýjum kjarasamningum á þessu ári og sumar stéttir hafa samið um ríflegar hækkanir. Sjómenn sitja hins vegar eftir, sjálf kauptryggingin hefur verið óbreytt í eitt og hálft ár. Sú var tíðin að kauptrygging sjómanna hækkaði í sama hlutfalli og samningar ASÍ. Það er sem sagt liðin tíð.

Ég nefni líka hérna ítrekaðar aðfarir að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Við þekkjum mæta vel að opinberir starfsmenn fá greidda dagpeninga, starfi þeir í hálfan dag eða meira fjarri heimilum sínum. Þessir dagpeningar eru skattfrjálsir og almennt taldir sjálfsagðir og eðlilegir. Sömu sögu er að segja um einkafyrirtæki, þar þykja dagpeningar sjálfsagðir.

Stjórnvöld eiga hiklaust að ganga til samninga við samtök sjómanna um skattfrjálsa dagpeninga í stað sjómannaafsláttarins, takist ekki að leiðrétta skerðingu sjómannaafsláttarins í yfirstandandi kjaraviðræðum við SFS.

Þetta er einfaldlega réttlætismál, ég get með engu móti séð hvers vegna réttlátt er að greiða fólki í landi skattfrjálsa dagpeninga á ferðalögum, en ekki fólki sem stundar sjómennsku fjarri heimilum sínum.

Útgerðarmenn hafa krafist þess að laun sjómanna verði lækkuð vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar. Við skulum ekki gleyma því að veiðigjöldin eru ekkert annað en skattur á útgerðina, sem stjórnvöld ákváðu að leggja á hagnað hennar. Og ég nefni líka að veiðigjöldin hafa lækkað á undanförnum árum, auk þess sem olíukostnaður hefur farið lækkandi. Kröfur útgerðarinnar um að lækka laun sjómanna eru því fráleitar.

Verðmyndun, mönnunarmál og vökulögin
Sjómannasamband Íslands vinnur eftir kröfugerð sem lögð var fyrir LÍU nú SFS fyrir nokkrum árum, það er í upphafi samningaviðræðna sem útgerðarmenn höfnuðu. Sambandið vill að allur afli verði seldur á uppboðsmörkuðum, eða verðið tengt við fiskmarkaðsverð eða afurðarverð. Að mínu viti er núverandi verðmyndunarkerfi ónýtt og nauðsynlegt er að setja skýrar reglur sem skylda útgerðina til að selja allan afla í gegnum markaði.

Ýmis öryggismál eru á lista Sjómannasambands Íslands, enda hafa útgerðarmenn haft tilhneigingu til að fækka í áhöfn skipa, sem að sjálfsögðu þýðir skert öryggi skipverja. Við slíkt er auðvitað ekki hægt að una og hafa sjómenn hvatt stjórnvöld til að gera rannsókn á afleiðingum þess að fækka í áhöfn, svo sem aukið álag og lengri vinnutíma. Í framhaldinu verði sett lög um lágmarks mönnun á fiskiskipum.

Ef ég man rétt, höfnuðu útgerðarmenn viðræðum um mönnunarmál, þar sem öryggismál væru ekki kjaramál. Slík afstaða er auðvitað hrein ósvífni, auk þess sem sjómenn taka þátt í að greiða tryggingar áhafna fiskiskipa.

Ég vil nefna eitt atriði í viðbót sem skiptir sjómenn á smábátum miklu máli, það er að inn í kjarasamninginn komi skýr ákvæði um hvíldartíma.

Skemmst er frá því að segja að listi útgerðarmanna yfir helstu málin í kjaraviðræðunum er langur og ítarlegur. Flestum málum er ætlað að draga út kostnaði útgerðarinnar og þar með skerða laun og önnur kjör sjómanna. Slíkar kröfur eru settar fram á sama tíma og hagnaðurinn telst vera í hæstu hæðum.

Nýir menn til forystu
Í desember í fyrra urðu viss kaflaskil í sögu Sjómannasambands Íslands. Valmundur Valmundsson frá Sjómannafélaginu Jötni í Vestmannaeyjum var kjörinn formaður, hann tók við formennsku af Sævari Gunnarssyni sem verið hafði formaður í 20 ár og gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Sævari þakka ég fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna.

Nokkrum mánuðum áður var Kolbeinn Árnason lögmaður ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Forveri hans, Friðrik J. Arngrímsson, hafði verið framkvæmdastjóri LÍÚ í nærri fjórtán ár. Með öðrum orðum, bæði útvegsmenn og sjómenn hafa ráðið til sín nýja forystumenn.

Auðvitað er framtíðin óskrifað blað, en mér þykir engu að síður rétt að undirstrika mikilvægi þess að gengið verði frá kjarasamningum sem allra fyrst. Sjómenn hafa á vissan hátt verið í gíslingu útvegsmanna í nokkur ár. Sú staða er auðvitað ekki boðleg og ég treysti nýjum formanni Sjómannasambands Íslands til að standa í stafni og sjá til þess að ýmis sjálfsögð kjara- og réttindamál sjómanna fái farsælan endi.

Jakob Gunnar Hjaltalín
formaður Sjómannadeildar Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga

Deila á