Eðvarð afturhald

Eðvarð vaknaði upp með andfælum þriðju nóttina í röð frá því hann kom aftur frá árlegri ferð sinni til suð-austur Spánar. Hann hafði nefnilega horfst í augu við dauðann í ferðinni. Ótrúlegt en satt þá var það ekki kólesterólið eða blóðþrýstingurinn í þetta sinn heldur spænska strandgæslan. Eðvarð hafði nefnilega lent í skipsskaða. Snekkjan sem hann leigði hafði orðið vélarvana á sakleysislegu Mallorca-sundinu. Neyðarköllin báru engan árangur enda kunnu hvorki hann, félagar hans eða fáklædda kvenkyns áhöfnin sem fylgdi með leigunni á bátnum á stjórntækin. Strandgæslan kom á vettvang eftir að ein kvennanna hafði yfirgefið skipið og synt þessa 200 metra sem í land voru. Það sem sat í Eðvarði var ekki öldugangurinn, myrkrið eða maðurinn með ljáinn, heldur var það sú staðreynd að spænska strandgæslan hafði ferjað karlana um borð í strandgæslubátinn á eftir konunum.

Loksins hafði Eðvarð sig af stað á kontórinn í tveggja ára gamla bílnum sem hann var farinn að hata. Hann var að verða aðhlátursefni í Rótarí og vandi sig nú á að taka leigubíl á golfvöllinn, skömmin var það mikil. Á kontórnum beið hans stelpuasninn sem hann var nýbúinn að ráða í vöruhúsið, mætt með plögg upp á það að hún ætti von á barni. Þvílík ósvífni! Eðvarð hellti sér yfir hana. Jafnréttisbaráttan væri komin út fyrir allan þjófabálk. Ekki töluðu konurnar sem sögðust vera spænskar og lentu í skipsskaðanum á Mallorca-sundinu mikið um jafnrétti þegar þær óhikað tóku öll sætin í björgunarbáti spænsku strandgæslunnar. Nú var komið að skuldadögum, hugsaði Eðvarð. Loksins var komin einhver mynd á alla þessa óreiðu sem einkenndi jafnréttisumræðuna. Konur vilja bara réttindin, ekki kvaðirnar. „Hvað kemur mér við þó þú sért ólétt?“ spurði loks Eðvarð. „Ætlastu til þess að ég borgi þér eitthvað?“ bætti hann við. „Er ekki nóg að krakkinn þurfi að fara í leikskóla á minn kostnað?“ Nægilega mikið fer í þessa helvítis skatta hugsaði hann og leiddi jafnframt hugann að þeim heilaga sannleik sem ætti við um tilgangsleysi skatta og engir aðrir en félagar hans í Verzlunarráði þorðu að vekja máls á. Í reiði sinni hafði Eðvarð gleymt systurfélaginu sem hann átti í Sviss og unaðslegu vaxtafléttunni sem endurskoðandinn, á skrifstofunni með erlendu skammstöfuninni, hafði kokkað upp fyrir hann. Öll gremjan vegna ósanngirni heimsins hlóðst upp í bringunni á Eðvarði sem á endanum braust út þegar hann öskraði á stelpubjánann að hún væri rekin.

Upplifun Eðvarðs á eigin þolraunum vegna svokallaðs „femínisma“ hlóðst upp hjá honum á næstu dögum. Dulbúinn skæruhernaður kvenna um svokallað ofríki karla var eitthvað sem Eðvarð varð að uppræta. Hann lét dótturson sinn fara á internetið fyrir sig og finna gagnlegar upplýsingar; t.a.m. dóu 1352 karlar en einungis 109 konur þegar Titanic sökk! Viðspyrna karlmennskunnar þyrfti að hefjast eigi síðar en núna! Eðvarð íhugaði að hækka launin hjá öllum körlunum sem unnu hjá honum til að bæta upp óréttlætið en það þýddi að helvítis tveggja ára gamli bíllinn hans yrði líklegast þriggja ára. Hann ákvað því í staðinn að lækka launin hjá öllum konunum sem unnu hjá honum. Eitthvað verðum við fá fyrir alla fórnina hugsaði hann áður en hann gleymdi sér í frygðinni við að flétta nýjasta bæklingnum frá bílaumboði Ingvars Helgasonar.

Loksins svaf Eðvarð vel. Það borgaði sig að taka slaginn. Fullnaðarsigur hafði unnist hugsaði hann og ákvað að verðlauna sig fyrir baráttu undanfarinna daga með því að nota „svigrúmið“ sem honum áskotnaðist með viðspyrnuaðgerð gærdagsins til að skipta út bíldósinni. Þegar Eðvarð kom á kontór var víman hins vegar fljót að renna af honum, verkstjórinn beið hans og tjáði honum að enginn kvennanna hefði mætt í vinnunna um morguninn en hins vegar biðu hans verkalýðsforinginn, bókasafnsvörðurinn og einhver helvítis sérfræðingur að sunnan. Eðvarð teygði sig í jakkavasann á gervileðurjakkanum sínum og náði í sprengitöflurnar, sturtaði í sig úr glasinu á meðan hann gjóaði augunum að bíldruslunni, dró djúpt inn andann og labbaði inn.

Lykilorð: Jafnrétti; fæðingar- og foreldraorlof

Deila á