Nærri 100 útlendingar eru um þessar mundir að störfum hjá ýmsum aðilum í Þingeyjarsýslum, sem launþegar hjá fyrirtækjum sem eru undirverktakar til dæmis við mannvirkjagerð á svæðinu. Mikið er umleikis nyrðra um þessar mundir, svo sem við virkjun á Þeistareykjum og þá eru framkvæmdir við byggingu kísilvers PCC á Bakka við Húsavík komnar vel af stað.
„Við fylgjumst vel með þróun mála og það eru miklir hagsmunir undir,“ sagði Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags á Húsavík, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Reglurnar verði þrengri
Þegar erlendir starfsmenn koma til starfa á Íslandi er gangurinn oft sá, segir Aðalsteinn Árni, að hér séu þeir 180 daga á ári, en sé dagafjöldinn undir þeirri tölu þarf viðkomandi starfsmaður ekki að greiða skatta til íslenska ríkisins og atvinnugreiðandi sleppur jafnframt við ýmis launatengd gjöld.
„Þetta er löglegt, en mjög pirrandi því auðvitað þiggur þetta fólk margvíslega þjónustu af samfélaginu en greiðir lítið eða ekkert fyrir. Að mínu mati þurfa reglunar að vera þrengri en nú er. Slíkt myndi skapa meiri festu og öryggi í öllu og jafnframt fengju ríki og sveitarfélög eðlilegar skatttekjur af þessu fólki. Svo höfum við líka séð þess dæmi að útlendingar séu hreinlega gabbaðir í vinnu, svo sem í ferðaþjónustunni. Fái þá fæði og húsnæði, og varla það, og því miður stökkva krakkar í ævintýraleit á slíkt. Þetta eru oft sorgleg mál svo ég segi þetta hreint út,“ segir Aðalsteinn.
Gert er ráð fyrir að allt að 800 manns komi að framkvæmdum í Þingeyjarsýslum á næstu árum. Háönn framkvæmda við kísilverið verður á næsta ári, en ráðgert er að starfsemi þess hefjist í lok árs 2017.
Tækifæri til að vera með
Aðalsteinn segir að því sé enn ráðrúm til að búa í haginn fyrir komu verkafólksins, en gert sé ráð fyrir að um fjórðungur þess hið minnsta verði útlendingar. Í því skyni hafi meðal annars verið settur á laggirnar starfshópur þar sem fulltrúar sveitarfélagsins, skóla, heilbrigðisþjónustu, stéttarfélags og fleiri eiga sæti. Á þeim vettvangi er nú farið mjög heildstætt yfir mál, þannig að aðbúnaður þessa fólks verði sem bestur og það hafi tækifæri á að taka þátt í samfélaginu.
„Við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði mátti standa betur að málum. Aðstæður sem verkafólki þar voru búnar voru í mörgum tilvikum alls ekki boðlegar. Slíkt má ekki endurtaka sig. Okkur í verkalýðshreyfingunni rennur þetta raunar mjög til rifja enda lána lífeyrissjóðir launafólksins mikla fjármuni til þessara framkvæmda og málin bara eiga að vera í góðu horfi,“ segir Aðalsteinn Árni.
Formaður Framsýnar var í viðtali í dag í Morgunblaðinu. Fréttin hefur vakið töluverða athygli og þó nokkrir hafa séð ástæðu til að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna í dag vegna málsins en stéttarfélagið Framsýn er þekkt fyrir að standa vörð um hagsmuni félagsmanna og samfélagsins og mun gera það áfram.