Krefst kjarasamnings þegar í stað

Í ályktun sem Framsýn samþykkti í dag, 18. nóvember, gagnrýnir félagið Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir viljaleysi til samningagerðar við aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands. Að mati Framsýnar hafa sveitarfélögin dregið lappirnar fram að þessu í viðræðunum. Framsýn telur að hefja eigi verkfallsaðgerðir á næstu vikum til að þrýsta á um gerð kjarasamnings milli aðila þar sem samningar hafa verið lausir frá því vorið 2015 sem er ekki líðandi:

Ályktun
Um stöðu kjaraviðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga

„Framsýn, stéttarfélag gagnrýnir Samband íslenskra sveitarfélaga harðlega fyrir viljaleysi til að ganga frá nýjum kjarasamningi við aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands.

Starfsfólk sveitarfélaga sem fellur undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið samningslaust frá 30. apríl 2015 sem er algjörlega ólíðandi.

Sá grunur læðist að Framsýn að áhrifa SALEK hópsins gæti í þessu máli sem með yfirgangi ætli sér að skerða samningsrétt stéttarfélaganna þvert á lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Framsýn, stéttarfélag skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að ganga að heilindum að samningaborðinu með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings við stéttarfélögin hið fyrsta. Gangi það ekki eftir kemur ekkert annað til greina af hálfu Framsýnar en að boðað verði til verkfalla hjá starfsmönnum sveitarfélaga til að knýja á um gerð kjarasamnings. „

Óánægju gætir meðal starfsmanna sveitarfélaga sem hafa verið samningslausir frá 30. apríl 2015.

Deila á