Lærdómsrík ferð til Finnlands

Félagar úr stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar gerðu sér ferð til Finnlands fyrir helgina ásamt starfsmönnum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Tilgangur ferðarinnar, sem var náms og kynnisferð, var að fræðast um verkalýðs- og efnahagsmál í Finnlandi og starfsemi sendiráðs Íslands í landinu. Fulltrúarnir fóru á eigin vegum og báru sjálf kostnaðinn af ferðinni fyrir utan styrki sem fengust frá starfsmenntasjóðum atvinnulífsins. Eftir að komið var út á fimmtudeginum var farið í heimsókn í íslenska sendiráiðið í Finnlandi þar sem Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Finnlandi tók á móti hópnum ásamt starfsmönnum sendiráðsins. Sendiherrann fór yfir starfsemi sendiráðsins og gerði því góð skil. Daginn eftir var farið snemma í heimsókn til SEL sem stendur fyrir starfsmenn í matvælaframleiðslu í Finnlandi. Henri Lindholm formaður fór yfir starfsemi sambandsins auk þess að fara vel yfir réttindamál verkafólks í Finnlandi. Þess má geta að Henri er jafnframt formaður NU Livs sem stendur fyrir verkafólk í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum. Því næst fór Olli Koski aðalhagfræðingur ASÍ í Finnlandi yfir efnahagshorfur í Finnlandi, sem því miður eru ekki alltof góðar. Að lokum gerði Anni Alaja starfsmaður Atvinnuleysistryggingasjóðs í Finnlandi grein fyrir starfsemi sjóðsins. Öll erindin voru mjög góð og urðu miklar umræður milli frummælenda og gestanna frá Framsýn. Eftir langan og strangan dag var síðan öllum gestunum boðið til kvöldverðar á vegum SEL. Glæsilegur dagur í alla staði og móttökurnar frábærar. Það fréttist að félagar úr Framsýn væru á ferðinni í Finnlandi á sama tíma og kynning stóð yfir á íslenska skyrinu frá MS á lítilli og vinalegri eyju við Helsinki. Það varð til þess að gestunum frá Framsýn var boðið að taka þátt í kynningunni á laugardeginum sem fór vel fram, en íslenskt skyr hefur vakið mikla athygli í Finnlandi og selst vel. Það er fyrirtæki í  í Finnlandi sem séð hefur um markaðskynninguna og kaupir það skyrið frá MS. Sjá meðfylgjandi frétt á visi.is um hátíðina:

„Heljarinnar skyrhátíð var haldin á lítilli eyju utan við Helsinki í Finnlandi um helgina. Fékk eyjan tímabundið nafnið Skyr Islandi, með vísun til skyrs og Íslands, en því var fagnað að sala skyrs hefur margfaldast þar í landi á undanförnum árum. Að því er segir í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni er nú meiri sala á skyri í Finnlandi en hér á Íslandi.

Útflutningur MS á skyri til Finnlands hófst með ferðalagi ungs manns að nafni Miikka Eskola til Íslands fyrir tæpum fimm árum síðan. Hann kolféll víst fyrir íslenska skyrinu og í framhaldinu hóf MS samstarf og útflutning á skyrinu til Finnlands.
„Nú er svo komið að eftirspurnin er mun meiri en framboðið þar sem framleiðslugetan annar vart eftirspurn en skyrið fyrir finnska markaðinn er bæði framleitt hér á Íslandi og hjá Thise-mjólkurbúinu í Danmörku fyrir MS.“
Í tilkynningunni frá MS segir að þegar hugmyndin um skyrhátíð hafi kviknað hafi skipuleggjendur ólmir viljað gefa gestum sínum meira en skyr að borða og því var sú nýstárlega leið farin að flytja Ísland til Finnlands yfir eina helgi með öllu tilheyrandi. Fjölmargir íslenskir listamenn lögðu leið sína til eyjunnar af þessu tilefni og lögðu sitt af mörkum til að gera upplifun gestanna sem besta.“ (heimild visir.is)

Eftir þrjá frábæra daga í Helsinki var síðan haldið heim til Íslands og komið til Húsavíkur á sunnudeginum. Samtals fóru 23 í ferðina og allir skiluðu sér heim eftir velheppnaða ferð. Sjá myndir:

Alls fóru 23 í þessa skemmtilegu og lærdómsríku ferð.

Gengið á milli staða í Helsinki í frábæru veðri.

Eins og þessi mynd ber með sér voru menn mjög  áhugasamir um starfsemi sendiráðsins í Finnlandi en starfsmennirnir fóru vel yfir tilgang sendiráðsins.

Formaður Framsýnar og sendiherra Íslands, Kristín A. Árnadóttir, tóku tal saman í heimsókn Framsýnar í sendiráðið.

Henri Lindholm formaður SEL fór vel yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar í Finnlandi í heimsókn Framsýanr til sambandsins.

Það gerði Olli Koski aðalhagfræðingur ASÍ í Finnlandi líka.

Anni frá finnska Atvinnuleysistryggingasjóðnum gerði góða grein fyrir uppbyggingu sjóðsins í Finnlandi.

Ágúst spurði og spurði út í málefni kynningarinnar líkt og aðrir fundarmenn frá Íslandi.

Áslaug Hersteinsdóttir sá um að túlka svo allar upplýsingar kæmust vel til skila frá SEL.

Jóna Matt kom að skipulagningu ferðarinnar og stóð sig afar vel eins og búast mátti við. Hér er hún að skoða athyglisverða auglýsingu um Skyr kynninguna í Finnlandi sem fulltrúar Framsýnar fóru á.

Hér má sjá eyjuna fögru sem er rétt utan við Helsinki þar sem kynningin á skyrinu frá Íslandi fór fram á laugardeginum. Mikil fjöldi fólks lagði leið sína í eyjuna til að taka þátt í  kynningunni.

Skálað í skyri. Forstjóri MS, Ari Edwald, bauð fulltrúum Framsýnar að taka þátt í kynninguni á skyrinu sem var skemmtileg upplifun. Skálað var í skyri í þessari fallegu eyju ásamt því að þekktar hljómsveitir frá Íslandi og reyndar þekktir menn frá Íslandi voru á svæðinu, sjá næstu myndir.

Flott saman, Ágúst, Hafþór, Eysteinn og Annie Mist. Kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson og tvöfaldur heimsmeistari í Crossift, Annie Mist Þórisdóttir tóku á móti gestum íklædd íslenskum lopapeysum

Glæsileg, Siggi Hall og Gyða Dan Johansen  eiginkona Ara Edwald voru á svæðinu og ljómuðu af gleði enda full ástæða til þess.

Þekktar hljómsveitir frá Íslandi komu fram og sungu þekkt lög á kynningunni.

Eftir kynninguna í eyjunni var farið aftur í land og út að borða í Helsinki, það er kvöldið fyrir heimferðina . Þessar myndarlegu stúlkur tóku á móti hópnum en þess má geta að önnur þeirra starfaði um tíma  á Íslandi og var ánægð með dvölina þar.

Næstu myndir bera með sér að ferðin tókst í alla staði afar  vel og var auk þess vel skipulögð.

Deila á