Flugfélagið Ernir hefur nú bætt enn frekar við áætlunarflugið milli Húsavíkur og Reykjavíkur og er með fastar 12 ferðir í viku. Einnig verða möguleikar á aukaferðum og er flugfélagið að gera ráð fyrir 14-16 ferðum í viku í vetur. Með þeirri uppbyggingu og framkvæmdum sem í gangi eru á Húsavík og þar í kring þá hefur eftirspurn aukist gríðarlega og er þessi bætta áætlun gerð til að anna þeirri eftirspurn.
Áætlar félagið að auka farþegastreymi mikið bæði með tengslum við framkvæmdir og eins hafa íbúar svæðisins tekið mjög vel í þau stéttafélagsfargjöld sem í boði eru og hafa nú náðst áframhaldandi samningar þar um. Gengið var frá samkomulagi þess efnis í vikunni milli flugfélagsins og Framsýnar.
Einnig er vert að nefna að aukning erlendra ferðamanna með flugi um Húsavíkurflugvöll hefur margfaldast á síðustu tveimur árum og er unnið að enn frekari aukningu á komu erlendra ferðamanna. Mikil kynning á sér stað innan ferðaskrifstofa bæði innlendra og erlendra og er það að skila sér í auknu streymi í flugið.
Með samningum við Framsýn og fleiri stéttafélög er Flugfélagið Ernir að gera almenningi enn frekar kleift að nýta flugsamgöngur og vill flugfélagið koma þakklæti á framfæri fyrir þær viðtökur og umtal sem félagið hefur fengið upp á síðkastið vegna þessara samninga.
Veruleg aukning hefur orðið í fjölgun farþega með Flugfélaginu Erni milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Þá hefur starfsmönnum á flugvellinum verið fjölgað um 100%. Það er úr tveimur starfsmönnum í fjóra. Eins og maðurinn sagði, það er allt á uppleið á Húsavík.