Veröld sem var … og er

Víkur og Loðmundarfjörður er samheiti yfir það svæði sem liggur á milli Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar. Þar var í eina tíð blómleg byggð þar sem íbúar, líkt og flestir aðrir landsmenn á þeim tíma byggðu afkomu sína á landbúnaði og sjósókn. Lommfirðingar urðu rúmlega 140 þegar flest var og mannfjöldi fór í annað eins um tíma í Víkum. Örlög byggðar á þessu svæði voru mjög í takt við þær miklu breytingar sem urðu í íslensku samfélagi undir lok 19.aldar. Fólk flutti í auknum mæli úr sveitunum í þéttbýlið, gamla bændasamfélagið sem ríkt hafði um aldir var að renna sitt skeið á enda og menn gerðu sér vonir um betra líf á mölinni. Á þessu einangraða svæði ríkti gamli tíminn áfram og smátt og smátt týndist fólkið í burtu. Að lokum fór svo að grundvöllur byggðarinnar brast, síðasta fjölskyldan flutti burt árið 1967 og sex árum síðar yfirgaf síðasti íbúinn Loðmundarfjörð. Um svipað leiti féll hurð að stöfum hjá síðustu ábúendum í Húsavík.

En þrátt fyrir að tækniöldinni hafi láðst að staldra við í Víkum og Loðmundarfirði er það svæði síður en svo mönnum gleymt. Í dag hefur það bara annað gildi en áður. Síðustu ár hafa Borgfirðingar byggt upp myndarlega ferðaþjónustu og nú leggur fjöldi ferðamanna leið sína suður um Víkur og í Loðmundarfjörð. Skipulegar ferðir eru m.a. frá Borgarfirði og fólk kemur víða að úr heiminum til að fá að upplifa þessa miklu náttúruparadís. Akvegurinn er þó aðeins fær þokkalega búnum bílum, en hann er yfirleitt opnaður í byrjun sumars. Svæðið er afar vinsælt meðal göngufólks sem sækir það heim í vaxandi mæli.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á og rekur gistiskála í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Þar er öll aðstaða með því besta sem gerist og skálaverðir eru ferðamönnum innanhandar yfir sumartímann.

Nú er það kyrrðin sem ræður ríkjum í Víkum og Loðmundarfirði en stórbrotin náttúran lætur engan ósnortinn er sækir svæðið heim. Í þessum afskekktu byggðum sóttu menn aðföng yfir heiðar og í gegnum há fjallaskörð og víst er að líf fólksins sem þar bjó hefur ekki alltaf verið dans á rósum.Göngufólk þræðir nú spor kynslóðanna, götur sem eitt sinn voru þjóðleiðir markaðar hlöðnum vörðum. Einstaka hús, gamlar hleðslur og tóftarbrot geyma sögu um líflegt mannlíf og þá blómlegu byggð sem áður var.

Deila á