Ljóst er að framundan eru miklir uppgangstímar á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Framkvæmdir eru byrjaðar á Þeistareykjum við uppbyggingu á orkumannvirkum. Á æstu vikum hefjast síðan framkvæmdir á vegum PCC á Bakka við byggingu á kísilveri. Þá liggur fyrir að leggja þurfi háspennulínu frá Þeistareykjum að iðnaðarlóðinni á Bakka auk þess sem ráðast þarf í hafnarframkvæmdir og jarðgöng í gegnum Húsavíkurhöfða. Talið er að um 700 manns komi að verkinu á uppbyggingartímanum sem er áætlaður þrjú ár og um 120 störf verði til við framleiðsluna á Bakka þegar verksmiðjan verður klár. Fyrir liggur að félagsmönnum Þingiðnar og Framsýnar mun fjölga töluvert við þessar framkvæmdir. Í því sambandi er mikilvægt að haldið verði vel utan um hlutina svo ekki komi til árekstra milli starfsmanna og verktakana sem koma til með að sjá um uppbygginguna. Stéttarfélögin tvö, Þingiðn og Framsýn hafa því ákveðið að standa fyrir fundi í Reykjavík á föstudaginn vegna framkvæmdanna á Þeistareykjum með fulltrúum frá Landsvirkjun, verktakanum LNS Sögu, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Þá verður á næstunni óskað annars vegar eftir fundi með fulltrúum Landsnets sem koma að því að leggja háspennulínuna til Húsavíkur og hins vegar með fulltrúum PCC vegna framkvæmdanna á Bakka.
Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn, hafa þegar hafið undirbúning vegna komu fjölda starfsmanna inn á félagssvæðið og tengist uppbyggingunni á Bakka.