Topp rekstur hjá litlu félagi

Ár 2015; þriðjudaginn 26. maí kl. 20:00 var aðalfundur Þingiðnar haldinn að Garðarsbraut 26.  Innan félagsins eru tæplega 100 iðnaðarmenn.  Formaður, Jónas Kristjánsson, bauð fundarmenn velkomna til fundarins. Hann gerði tillögu um Aðalstein Árna Baldursson sem fundarstjóra. Tillagan var samþykkt. Aðalsteinn þakkaði traustið og fór þess á leit við fundinn að hann, ásamt Huld skrifstofu- og fjármálastjóra rituðu fundargerð fundarins auk þess sem Huld kæmi að því að stjórna fundinum þar sem hann yrði að víkja af fundinum þar sem samningaviðræður við ræstingafyrirtæki væru fyrirhugaðar síðar um kvöldið.

Fundarmenn gerðu ekki athugasemdir við tillögu fundarstjóra. Ekki komu heldur fram athugasemdir við boðun fundarins en fundurinn var boðaður samkvæmt lögum félagsins.

Dagskrá fundarins:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

Skýrsla stjórnar

Ársreikningar

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu

Lagabreytingar

Ákvörðun árgjalda

Laun stjórnar

Kosning löggilts endurskoðanda

2. Kjaramál

3. Önnur mál

Niðurstöður fundarins:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

a) Skýrsla stjórnar

Formaður, Jónas Kristjánsson flutti skýrslu stjórnar.

Fundir Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 27. maí 2014 eru eftirfarandi:

Stjórnarfundir 4

Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 2

Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 6

Fundir í 1. maí nefnd 1

Fundir skoðunarmanna reikninga 1

Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12

Félagsfundir 0

Samtals fundir 26

Að venju hefur formaður félagsins verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson. Kjörtímabil þeirra er til ársins 2016.

Félagatal Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2014 voru 93 talsins. Greiðandi einstaklingar voru 85 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 83 og konur 2. Ákveðnar væntingar eru um að félögum komi til með að fjölga á þessu ári vegna framkvæmda á Þeistareykjum og á Bakka verði að þeim framkvæmdum sem flest bendir til.

Fjármál

Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 6.417.377 sem er 12,2% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2014 námu kr. 2.205.806, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.058.333. Um er að ræða lækkun milli ára.

Á árinu 2014 fengu samtals 35 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði.

Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 2.618.382 og eigið fé í árslok 2014 nam kr. 211.384.832 og hefur það aukist um 1,25% frá fyrra ári.

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.534.496.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Þingiðn bauð út endurskoðun á reikningum félagsins á síðasta ári. Lægsta tilboðið kom frá PWC og var samið við þá um áframhaldandi endurskoðun með fyrirvara um samþykki aðalfundar félagsins. Athygli vakti að tilboðið hljóðaði upp á 40% lægri kostnað við endurskoðunina miðað við starfsárið 2013. Það borgaði sig því greinilega fyrir félagið að láta bjóða verkið út.

Orlofsmál

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framboðið sumarið 2015 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 10 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 136.114. Stéttarfélögin stóðu fyrir ferð til Færeyja síðastliðið haust. Ferðin gekk vel. Í sumar verður boðið upp á tveggja daga ferð að Holuhrauni.

Þorrasalir 1-3

Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna. Ljóst er að það var mikið happaspor þegar Þingiðn fjárfesti í íbúð í Þorrasölum, það er á réttum tíma en íbúðin hefur hækkað verulega í verði frá því hún var afhend félaginu árið 2012.

Fræðslumál

Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 7 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 561.243 sem er veruleg hækkun milli ára. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn, þess í stað þarf félagið að greiða fræðslustyrki úr félagssjóði félagsins.

Kjaramál

Kjarasamningur Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins voru lausir þann 28. febrúar 2015. Viðræður við Samtök atvinnulífsins hafa engu skilað. Sem þarf ekki að koma á óvart þar sem tilboð þeirra er líkt og síðast ekki bjóðandi iðnaðarmönnum. Iðnaðarmenn innan Samiðnar fóru illa út úr síðustu kjarasamningum og því er eðlilegt að krefjast þess að kjör iðnaðarmanna taki mið af menntun og starfsreynslu og hækki í takt við aðra hópa sem undanfarið hafa fengið verulegar launahækkanir á silfurfati. Samiðn ásamt VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, MATVÍS, Rafiðnaðarsambandi Íslands, Grafíu –(FBM) stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum og Félagi hársnyrtisveina standa að atkvæðagreiðslunni um vinnustöðvun sem verður með eftirfarandi hætti verði hún samþykkt:

Tímabundið verkfall dagana 10. t.o.m 16. júní 2015 og ótímabundið verkfall sem hefst þann 24. ágúst 2015. Verði verkföllin samþykkt munu þau taka til þeirra félagsmanna sem falla undir almennan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og viðkomandi stéttarfélaga og sambanda. Kosning um verkfallsheimild verður rafræn og hófst hún þann 24. maí 2015 og lýkur þann 1. júní 2015, kl 10:00. Fulltrúar iðnaðarmanna hafa undanfarið átt í viðræðum við SA um endurnýjun kjarasamninga og á fundi viðræðunefndar félaganna með fulltrúum SA þann 5. maí s.l. var sýnt að viðræðurnar væru árangurslausar og tilgangslaust væri að halda þeim áfram.

Í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir hafa iðnaðarmannafélögin lagt áherslu á að minnka vægi yfirvinnu í heildarlaunum með því að hækka dagvinnulaun svo þau dugi til framfærslu. Mikil þörf er fyrir nýliðun í greinunum en núverandi launakerfi hafa skapað starfsumhverfi sem höfðar síður til ungs fólks.

Atvinnumál

Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum hefur almennt verið nokkuð gott miðað við ytri aðstæður og lítið um atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir á Þeistareykjum við byggingu á stöðvarhúsi og öðrum tilheyrandi mannvirkjum. Þá er það mat stjórnar, eins og stóð í síðustu skýrslu líka, að stórfyrirtækið PCC taki ákvörðun á næstu dögum að hefja framkvæmdir á Bakka. Gerist það, þurfa félagsmenn Þingiðnar væntanlega ekki að kvarta undan verkefnaskorti á komandi árum. Til viðbótar má geta þess að verktakar sem koma að verkinu hafa sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna með það í huga að skrá starfsmenn í Þingiðn. Við megum því búast við að það fjölgi í félaginu á uppbyggingartímanum sem er vel.

Hátíðarhöldin 1. maí

Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2015. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 700 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi. Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sá um skipulagninguna. Þess ber þó að geta að sérstök nefnd stéttarfélaganna sér um að ganga frá dagskrá hátíðarinnar.

Starfsemi félagsins

Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið hefur í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna unnið að því að skoða með að breyta húsnæði G-26 (efri hæð) í skrifstofur til útleigu. Reiknað er með að húsnæðið verði hannað í sumar og boðið út í haust reynist það fjárhagslega hagkvæmt að ráðast í þessar framkvæmdir. Verði af framkvæmdunum stendur til að stofna sérstakt húsfélag um rekstur eigna Þingiðnar og aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stéttarfélögin reikna með að ráðast í lagfæringar á húsnæði Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar, það er utanhúss. Mála þarf húsið ásamt því að gera við múrskemmdir. Búið er að ráða verktaka sem reikna með að ráðast í framkvæmdina í júní. Verkið verður unnið í samstarfi stéttarfélaganna við aðra húseigendur Garðarsbrautar 26. Félögin gerðu samning við Enor og TM um leigu á tveimur skrifstofum í húsnæði stéttarfélaganna sem eru til hliðar við fundarsal stéttarfélaganna. Vinnumálastofnun var með aðra skrifstofuna á leigu sem þeir sögðu upp þegar þeir lögðu starfsemina niður á Húsavík þann 1. desember 2014. Félagið kom að því ásamt öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna og útibúi Íslandsbanka á Húsavík að færa Hvammi heimili aldraðra hátíðar matarstell að gjöf fyrir jólahátíðina 2014.

Samkomulag við Flugfélagið Erni

Í nóvember 2013 gerði Framsýn samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Síðan þá hefur samkomulagið verið endurnýjað með reglubundnum hætti. Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar fengu aðgengi að samningnum fyrir sína félagsmenn. Samkomulagið byggir m.a. á því að Framsýn gerir magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Þannig geta félagsmenn ferðast milli Húsavíkur og Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Húsavíkur fyrir aðeins kr. 8.500,- aðra leið, það er í einkaerindum. Miðarnir hækkuðu nýlega úr kr. 7.500 upp í kr. 8.500. Flugmiðarnir sem seldir eru á kostnaðarverði eru aðeins ætlaðir félagsmönnum og geta þeir einir ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem félagsmenn stéttarfélaganna hafa fengið þegar horft er til þess félögin versluðu 3700 miða á árinu 2014 fyrir kr. 28.430.000. Varlega áætlað spöruðu félagsmenn stéttarfélaganna sér um 29 milljónir við kaup á flugmiðum í gegnum Framsýn. Þá má halda því fram að samningurinn við flugfélagið hafi tryggt í sessi flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur þar sem um 30% farþega fljúga í gegnum stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Geta má þess að sjónvarpsþátturinn vinsæli Landinn sem sýndur er á RÚV fjallaði um samning Framsýnar og Flugfélagsins Ernis um ódýr flugfargjöld í þætti í vetur. Umfjöllunin vakti athygli. Til viðbótar má geta þess að félagsmenn stéttarfélaganna eiga rétt á afsláttarkjörum þurfi þeir að flytja frakt með Flugfélaginu Erni milli landshluta.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins, öllum samtökum stéttarfélaga og launagreiðenda á almennum markaði, ríki og sveitarfélögum. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin skrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Í septembermánuði 2010 hóf Ágúst Sigurður Óskarsson fullt starf sem ráðgjafi í starfsendurhæfingu í Þingeyjarsýslum. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu. Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn eða formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu. Flest fyrirtæki og stofnanir hafa verið í jákvæðum samskiptum við Virk um málefni starfsmanna sinna sem eru í samvinnu við Virk. Afar gleðilegt er að nokkur hafa átt frumkvæði að því að bjóða störf og samvinnu vegna einstaklinga með heilsubrest sem eru að leita að tækifærum á vinnumarkaði að nýju. Allar nánari upplýsingar um starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að nálgast á heimasíðu sjóðsins www.virk.is. Þar eru aðgengilegar upplýsingar um þjónustuna og hagnýtar upplýsingar fyrir einstaklinga og stjórnendur á vinnumarkaði um málefni tengd starfsendurhæfingu og fjarvistarstjórnun. Einnig er hægt að hafa samband við ráðgjafa Virk í Þingeyjarsýslum, Ágúst Sigurð Óskarsson í síma 464-6608 og/eða á netfangið virk@framsyn.is.

Málefni skrifstofunnar Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Ef marka má heimsóknir á síðuna eru menn mjög duglegir að fylgjast með starfsemi félaganna. Sem dæmi má nefna að 3.462 heimsóttu síðuna á viku tímabili í maí. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Reyndar er nokkur óvissa varðandi framkvæmdirnar á Bakka. Verði að framkvæmdunum er ekki ljóst hvernig brugðist verður við varðandi mannahald á skrifstofunni. Hugsanlega þarf að ráða starfsmann til að sinna verkefnum er tengjast uppbyggingunni. Því hefur verið haldið fram að allt að 700 manns komi að uppbyggingunni á svæðinu þegar mest verður. Slíkur fjöldi kallar á aukna þjónustu frá Skrifstofu stéttarfélaganna. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Þá er greinilegt að framkvæmdir sem hafnar eru á svæðinu s.s. á Þeystareykjum og væntanlegar framkvæmdir á Bakka kalla á aukna notkun á fundarsal stéttarfélaganna þar sem verktakar og aðrir þeir sem koma að framkvæmdunum hafa þegar sóst eftir aðstöðu fyrir fundi og námskeið sem tengjast t.d. framkvæmdunum á Þeistareykjum. Salurinn er töluvert bókaður undir námskeið og fundi um þessar mundir sem tengist þessum framkvæmdum. Reikna má með að svo verði áfram.

Lokaorð

Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

b) Ársreikningar

Huld Aðalbjarnardóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins. Sjá helstu niðurstöður undir liðnum, Fjármál, í skýrslu stjórnar.

c) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Umræður urðu um skýrslu stjórnar og reikninga. Fundarmenn lögðu fram nokkrar spurningar sem formaður félagsins og starfsmenn svöruðu eftir bestu getu. Því næst bar fundarstjóri upp eftirfarandi tillögu um ráðstöfun á tekjuafgangi sem var samþykkt samhljóða: Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári.

d) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu

Þessi dagskrárliður var ekki tekinn til umræðu þar sem kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins gildir frá árinu 2014 til aðalfundarins 2016.

e) Lagabreytingar

Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.

f) Ákvörðun árgjalda

Eftirfarandi tillaga um árgjald var samþykkt samhljóða: Tillaga stjórnar er að árgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum.

g) Laun stjórnar

Eftirfarandi tillaga um laun stjórnar var samþykkt samhljóða: Tillaga er um að laun stjórnar verði óbreytt milli ára. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

h) Kosning löggilts endurskoðanda

Eftirfarandi tillaga um löggiltan endurskoðanda var samþykkt samhljóða: Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2015.

2. Kjaramál

Jónas Kristjánsson formaður fór yfir stöðuna í yfirstandandi kjaradeilum, verkfallsboðun og það sem liggur á borðinu varðandi kröfugerð Samiðnar. Umræður urðu um málið og þótti fundarmönnum litlar upplýsingar berast frá samninganefnd Samiðnar sem benti til að lítið þokaðist í samkomulagsátt.

3. Önnur mál

Orlofsferð sumarsins. Fyrirspurnir komu um fyrirhugaða orlofsferð stéttarfélaganna í Holuhraun í ágúst. Jónas kynnti dagskrá þeirrar ferðar og að Þingiðn greiddi niður þá ferð fyrir sína félagsmenn. Hugmyndir komu um ferð í nýja Íshellinn í Langjökli og var stjórn falið að kanna kostnað við slíka ferð.

Hugsandi félagsmenn á aðalfundi Þingiðnar.

Deila á