Pétur og Skarphéðinn heiðraðir í dag

Tveir sjómenn voru heiðraðir á Húsavík í dag, það voru bræðurnir Pétur og Skarphéðinn Olgeirssynir. Athöfnin fór fram í sal  Miðhvamms þar sem Slysavarnardeild kvenna stóð fyrir sjómannadagskaffi. Fjölmenni var við athöfnina sem fór vel fram. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði nokkur orð og rakti sjómannsferil þeirra bræðra sem má lesa hér:

Ágæta samkoma!

Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn. Dagurinn í dag skapar ákveðinn sess í lifi okkar Húsvíkinga enda tengjumst við flest sjómennskunni á einn eða annan hátt.

Faðir minn stundaði t.d. sjómennsku á sínum tíma sem og hálfbróðir og alnafni Aðalsteinn Árni Baldursson sem hafið tók í sjóslysi árið 1959. Hann hafði þá stundað sjómennsku í nokkur ár, rúmlega tvítugur að aldri.

Sú hefð hefur skapast víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem skarað hafa fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi í gegnum tíðina þeim, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla. Í gegnum tíðna hafa gjaldeyristekjur þjóðarinnar að stórum hluta komið í gegnum seldar sjávarafurðir og því hafa sjómannsstörfin og störf tengd sjávarútvegi í landi skipt þjóðina miklu máli. Þess vegna, ekki síst, eiga sjómenn og fiskvinnslufólk miklar þakkir skildar fyrir þeirra framlag til þjóðarinnar.

Í dag ætlum við að heiðra tvo heiðursmenn. Þeir eru ekki bara góðir sjómenn og herramenn heldur bræður og þá heita þeir báðir í höfuðið á öfum sínum, bæði í móður- og föðurætt. Þetta eru þeir Skarphéðinn Jónas Olgeirsson, eða Deddi og Pétur Sigurgeir Olgeirsson.

Það má með sanni segja að um æðar þeirra streymi sjómannsblóð enda margir góðir sjómenn ættaðir úr Skálabrekku á Húsavík komnir út af Ragnheiði Jónasdóttur og Olgeiri Sigurgeirssyni. Blessuð sé minning þeirra.

Pétur Sigurgeir Olgeirsson
Pétur Sigurgeir Olgeirsson fæddist á Húsavík 12. október 1945. Sonur Rögnu og Olla í Skálabrekku sem eignuðust 11 drengi en einn þeirra lest stuttu eftir fæðingu.

Hann er giftur Ásu Dagnýju Hólmgeirsdóttur frá Flatey á Skjálfanda og eiga þau þrjú uppkomin börn.

Pétur stóð varla upp úr skónum þegar hann fór að fylgja föður sínum niður fyrir bakkann. Enda þurftu allir sem vettlingi gátu valdið að taka þátt í skapa stóru heimili lífsviðurværi. Hvort heldur var að taka þátt í atvinnulífinu fyrir neðan bakkann og/eða eins og var í tilfelli Skálabrekkubræðra að hirða um bústofninn í Skálabrekku með foreldrum sínum. Bústofninn taldi nokkrar kindur og eina kú. Vinnutíminn á stóru heimili var ekki 08:00-17:00 virka daga heldur frá morgni til kvölds alla daga, það er virka daga sem helga.

Pétur fékk ungur ráðningu hjá útgerðarmönnunum Kalla í Höfða, Karli Aðalsteinssyni og Kidda nausta, Kristjáni Sigurjónssyni við að stokka upp bjóð. Það lýsir vel þeim tíðaranda sem var á þessum tíma, að geta þess að til þess að Pétur gæti stokkað upp bjóðin, var settur undir hann stór pallur svo hann næði upp fyrir borðið sem hann var að stokka við. Borðin miðuðust ekki við litla drengi heldur fullvaxið fólk.

Vorið 1961, þá 15 ára gamall, réði Pétur sig sem kokk með Guðjóni Björnssyni skipstjóra á Stefán Þór TH sem var um 50 tonna bátur. Stefán Þór var gerður út á síld frá Húsavík. Síðar um haustið sama ár réð hann sig á Helgu TH sem háseta sem var sömuleiðis um 50 tonna bátur gerður út frá Húsavík. Á þeim tíma var Pálmi Héðinsson með bátinn.

Upp úr áramótunum 1962 réði Pétur sig á Pétur Jónsson TH 50 frá Húsavík sem gerður var út frá Sandgerði yfir vetrarvertíðina. Þar var hann með skipstjórnunum Pálma Héðins og Ingvari Hólmgeirsyni. Eftir að hafa átt góðan tíma á Pétri Jónssyni réði hann sig á Smára ÞH 59 með Óskari Þórhallssyni og var þar til vorsins 1964 þegar Pétur tók sér tímabundna hvíld frá sjómennskunni og hóf nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist sem stýrimaður 1965.

Upp úr því fór hann á Víði II GK með Óskari Þórhallssyni. Pétur var háseti og afleysinga stýrimaður á Víði II.

Pétur breytti til vorið 1966 og fór á grásleppuveiðar með tengdaföður sínum frá Flatey, Hólmgeiri Árnasyni.

Í framhaldi af því réði Pétur sig sem stýrimann á Sigurborgu SI sem gerð var út frá Akranesi og var þar til ársins 1967. Skipið stundaði bæði síldveiðar og veiðar í þorskanet.

Árið 1968 var hann með Sigga Valla bróður sínum á Kristbjörgu ÞH 44 á línu, netum og þorskanót. Ári síðar réði hann sig til Bjössa Sör á Glað ÞH þar sem hann var um tíma áður en hann réði sig sem annan stýrimann á Örn KE 1. Báturinn stundaði m.a. loðnuveiðar við Ísland og síldveiðar í Norðursjó. Hann var á Erninum í tvö ár.

Eftir það tók Pétur við Glað ÞH sem skipstjóri og síðar Jóni Sör ÞH 220 sem var í eigu sömu útgerðar. Jón Sör var um 60 tonna bátur keyptur úr Stykkishólmi. Pétur keypti sig inn í útgerðina og var því á þessum tíma bæði orðinn skipstjóri og útgerðarmaður. Hann átti útgerðina með Hermanni Ragnarssyni og Jóhanni Kr. Jónssyni. Jóhann sá um bókhaldið og Hermann sá til þess að halda vél skipsins gangandi af mikilli fagmennsku.

Sumarið 1977 kaupa félagarnir Arney KE af Óskari Þórhallssyni sem var 140 tonna trébátur sem þeir áttu í eitt ár áður en þeir seldu hann. Pétur hætti útgerð árið 1978 og settist á skólabekk, það er í Tækniskóla Íslands og nam þar útgerðartækni. Pétur útskrifaðist árið 1980 og réði sig þegar í stað til Tanga hf. á Vopnafirði sem útgerðarstjóri, tveimur árum síðar gerðist hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Fjölskyldan bjó á Vopnafirði í 10 ár áður en þau fluttu suður til Reykjavíkur. Pétur tók við Meitlinum í Þorlákshöfn sem framkvæmdastjóri og var þar í 6 ár en hann hætti þar um áramótin 1996/97.

Pétur tók sér frí frá sjávarútveginum og snéri sér að eigin atvinnurekstri í landi ásamt börnum. Hann var viðloðandi þann rekstur í nokkur ár.

Árið 2013 kom Pétur norður til Húsavíkur en þá hafði hann ráðið sig á hvalaskoðunarbát í eigu GG-Hvalaferða, sjómennskan kallaði. Hann ætlaði sér að vera sumarlangt. Það gekk hins vegar ekki eftir þar sem hann flutti ásamt eiginkonu norður á æskuslóðirnar ári síðar, það er í Skálabrekku á Húsavík þar sem þau búa í dag og vonandi verður svo áfram. Hver veit nema Pétur fái sér nokkrar kindur og eina kú á elliárunum til að hafa í hliðunum við Skálabrekku líkt og karl faðir hans sem hafði mikið yndi og ánægju af nálægðinni við búfénaðinn, það veitti honum mikla lífsfyllingu. Í það minnsta er Pétur alltaf velkominn í Fjáreigendafélag Húsavíkur.

Eins og þessi upptalning ber með sér hefur Pétur verið lengi að og hann er enn að, því sjá má hann leggja úr höfn á Húsavík flesta daga yfir sumarið með fullann bát af ferðamönnum út á Skjálfanda í leit að hvölum og fuglalífi. Tugþúsundir ferðamanna heimsækja Húsavík á hverju ári með þá þrá í brjósti að upplifa lífríkið í blóma á Skjálfanda. Það eru fáir betur til þess fallnir en Pétur Olgeirsson að láta þennan draum rættast enda þekkir hann Skjálfandann betur en flestir aðrir enda hefur Pétur siglt um flóann við allskonar aðstæður. Það er ekki alltaf blíða á Skjálfanda, menn hafa upplifað sjóskaða og strönd við erfiðar aðstæður.

Hér er ég m.a. að vitna til strands flutningaskipsins Hvassafells sem strandaði við Flatey 7. mars árið 1975 í brjáluðu veðri. Pétur fór með björgunarsveitarmenn frá Húsavík út í Flatey á Jóni Sör ÞH. Annar bátur lagði einnig úr höfn til björgunaraðgerða. Það var Svanur ÞH. Þar stóð í brúnni Ingvar Hólmgeirsson skipstjóri. Ljóst er að Björgunarsveitin Garðar vann þrekvirki við björgun á áhöfn Hvassafells. Það skemmdi ekki fyrir að hafa tvo öfluga skipstjóra í brúnni á Jóni Sör og Svaninum sem komu björgunarsveitarmönnum á áfangastað þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður og tóku auk þess virkan þátt í björgunaraðgerðunum.

Þennan dag þurfti bæði kjark og þor til að sigla yfir Skjálfandann í brjáluðu veðri, hvað þá að ná landi í Flatey við þessar aðstæður enda hafnaraðstæðurnar ekki þær bestu, hvað þá í ofsaveðri.

Pétur fær á hverju ári hringingu frá áhafnarmeðlimi sem var um borð í Hvassafelli þegar skipið strandaði, það sýnir þá virðingu sem áhöfnin ber fyrir öllum þeim sem komu að björgunarafrekinu við Flatey árið 1975. Þetta er ekki eina björgunin sem Pétur hefur komið að. Þess má geta að þegar hann flutti til Vopnafjarðar kom hann að því að stofna björgunarsveit á Vopnafirði, minnugur björgunarinnar í Flatey og mikilvægi björgunarsveita. Seinna átti hann eftir að koma að björgun þegar 11 mönnum af flutningaskipi var bjargað í botni Vopnafjarðar. Björgunin tókst giftusamlega.

Pétur Sigurgeir Olgeirsson, hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.

Skarphéðinn Jónas Olgeirsson:
Skarphéðinn Jónas Olgeirsson fæddist á Húsavík 6. júní 1948. Sonur Rögnu og Olla í Skálabrekku. Hann er giftur Kristjönu Vilborgu Ketilsdóttur úr Þistilfirði og eiga þau fjögur uppkomin börn.

Hér á árum áður þótti eðlilegt að ungir og efnilegir menn tækju til hendinni og hjálpuðu til í daglegum störfum í sjávarþorpum eins og Húsavík. Deddi lét ekki á sér standa og byrjaði ungur að leggja leið sína niður fyrir bakkann þar sem hann tók til hendinni.

12 ára gamall eða um 1960 fór hann að beita hjá föður sínum sem gerði út 10 tonna bát, Njörð TH 44. Hann og Jón bróðir hans beittu upp á einn hlut enda báðir ungir að árum en Jón var árinu eldri en Deddi. Deddi var þá að klára barnaskólann og Jón var í fyrsta bekk í Gagnfræðaskóla Húsavíkur. Þrátt fyrir ungan aldur voru þeir mætir kl. fimm á morgana til að beita. Þá þurfti einnig að stokka upp bjóðin þegar Njörður kom að landi eftir velheppnaðar veiðiferðir en Njörður var dagróðrabátur. Það voru oft þreyttir ungir bræður sem gengu heim síðla dags eftir langa vinnulotu. Þá var gott að koma heim til Rögnu í Skálabrekku sem tók vel á móti drengjunum sínum.

Deddi fór fyrst á sjóinn 16 ára gamall þegar hann réði sig á Smára ÞH 59 með Óskari Þórhallssyni skipstjóra á síldveiðar sumarið 1964. Smári var rúmlega 60 tonna bátur. Um haustið fór hann með Óskari á Jörund III RE 300 á síldveiðar við stendur Noregs. Jörundur III fór fyrst íslenskra skipa á síldveiðar við Noreg. Eftir áramótin var báturinn gerður út á þorskanót við strendur Íslands, nánar tiltekið suður af landinu, enda Jörundur III öflugt skip.

Deddi hélt mikla tryggð við skipstjórann Óskar Þórhallsson frá Húsavík. Óskar tók við Víði II GK eftir að hafa verið með Jörund III. Deddi fór með honum á Víði II en sú samleið varð ekki löng þar sem Skarphéðinn veiktist alvarlega um borð, þá 17 ára gamall. Vegna veikindanna varð hann að segja sig frá sjómennsku í tvö ár meðan hann var að ná fyrri heilsu. Reyndar var hann orðinn fær til vinnu í landi ári síðar eftir veikindin og réð hann sig þá til starfa hjá Sigurði Gunnarssyni kenndan við Hlíð á Húsavík sem þá rak fiskvinnslu á staðnum.

Hafið togaði og 19 ára gamall réði hann sig á Viðey RE sem gerður var út á fiskitroll suður af landinu. Viðey kom til löndunar á Húsavík og hoppaði Deddi óvænt um borð þar sem sjómaður um borð veiktist og var leitað til Dedda um að leysa veika sjómanninn af hólmi sem hann og gerði. Deddi fór nokkra túra með skipinu um sumarið. Síðar sama ár réði hann sig hjá Hinrik Þórarinssyni á Hagbarð ÞH. Þar var hann um borð í tvö ár en Hagbarður var gerður út á línu, snurvoð og net.

Vorið 1970 urðu nokkur þáttaskil varðandi þann veiðiskap sem Deddi hafði stundað fram að þeim tíma sem háseti á nokkrum bátum af flestum stærðum og gerðum. Því þá hélt hann í víking, þó ekki langt, heldur út í Flatey á Skjálfanda með þeim bræðrum Ragnari og Jóni Hermannssonum sem stunduðu grásleppuveiðar frá Flatey. Deddi sagði ekki alveg skilið við þennan veiðiskap því ári síðar fór hann á grásleppuveiðar með Guðmundi A. Hólmgeirssyni sem gerði út frá Húsavík, bæði á grásleppu- og þorskanet.

Upp úr þessu ræður Deddi sig á báta frá Húsavík sem voru í eigu föður hans og bræðra eða sem þeir stjórnuðu sem skipstjórar. Hann var á Kristbjörgu ÞH, með Sigga Valla, Jóni Sör ÞH með Pétri, Kristbjörgu II ÞH með Hreiðari og Kristey ÞH með Heiðari Geir. Þessir bátar voru gerðir út á línu, net, troll, snurvoð og rækju. Þetta var langt og farsælt tímabil eða frá árinu 1975 til ársins 1997.

Ekki er óalgengt á Húsavík að eftir að menn hætta sjómennsku í þeirri merkingu að hafa sjómennskuna sem lifibrauð við veiðar og vinnslu að menn vendi sínu kvæði í kross og ráði sig á hvalaskoðunarbáta frá Húsavík. Deddi gekk þennan veg en hann réði sig sem vélstjóra á hvalaskoðunarbáta hjá Norðursiglingu á Húsavík árið 2001. Þar var hann til ársins 2007 þegar hann gekk í land og lauk þar með formlega löngum og ströngum sjómannsferli eftir um 40 ára starf sem sjómaður.

Fyrri hluta sjómannsferilsins var Deddi háseti. Hann náði sér í vélstjórnarréttindi en hann stundaði nám við Framhaldsskólann á Húsavík veturinn 1981 til 1982 en þá var skólinn með vélstjórnarbraut. Eftir það var hann vélstjóri á þeim bátum sem hann réði sig á, en hann hafði réttindi upp á 1018 hestafla vélar.

Það er ekki hægt að sleppa því að minnast þess að Deddi tók þátt í björgunarafrekinu við Flatey þegar Hvassafellið strandaði. Meðan Pétur bróðir hans stóð vaktina í brúnni á Jóni Sör vaktaði Deddi vélina sem var undir miklu álagi. Til er saga að því þegar Deddi kom heim til Jönu eftir frækna björgun, þá riðaði hann eins og hann væri blindfullur eftir ganginum heima. Svo var að sjálfsögðu ekki heldur þjáðist hann af mikilli sjóriðu eftir allt volkið um daginn.

Skarphéðinn Jónas Olgeirsson, hafðu líkt og Pétur kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Bræður, þjóðin er rík að eiga menn eins og ykkur.

Ég vil biðja ykkur að koma hér upp ásamt eiginkonum og veita viðtöku sérstökum orðum ykkur til heiðurs. Gjörið svo vel Pétur og Skarphéðinn ásamt eiginkonum.

Pétur Sigurgeir Olgeirsson, Ása Dagný Hólmgeirsdóttir, Kristjana Vilborg Ketilsdóttir og Skarphéðinn Jónas Olgeirsson.

Hjónin Pétur og Ása Dagný Hólmgeirsdóttir.

Hjónin Skarphéðinn og Kristjána Vilborg Ketilsdóttir.

Tvö af börnum þeirra hjóna, Sævar og Linda heiðruðu foreldra sína með nærveru sinni.

Villi Páls og Deddi rifja upp strand Hvassafells við Flatey 7. mars 1975. Aðalsteinn formaður Framsýnar kom inn á strandið í ræðu sinni í dag og taldi afrekið einstakt. Villi kom að strandinu sem formaður Björgunarsveitarinnar Garðars og Deddi var vélstjóri á Jóni Sör ÞH sem fór með björgunarsveitarmenn út í Flatey frá Húsavík  við mjög erfiðar aðstæður enda brjálað verður.

Slysavarnarkonur stóðu sig vel í kaffinu dag eins og reyndar alltaf.

Þessi fallegi barnahópur naut þess að leika sér í blíðunni í dag í stað þess að njóta veitinga inni í Miðhvammi.

Linda Péturs er hér ásamt dóttir sinni en þær komu norður til Húsavíkur  til að vera við heiðrunina.

Bræðrum var vel fagnað í dag.

Margir góðir gestir voru við athöfnina í  dag, meðal þeirra var Kristín Magnúsardóttir.

Deila á