Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Í upphafi viðræðna fór Starfsgreinasambandið fram með þá skýru kröfu að lágmarkslaun yrðu 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Auk þess var lögð áhersla á sérstakar hækkanir hjá starfsfólki í útflutningsgreinum. Órofa samstaða og kraftur félagsmanna í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins skilaði því skýra markmiði sem lagt var upp með í upphafi um hækkun lægstu launa. Markmið SGS um 300 þúsund króna lágmarkslaun er orðið að veruleika.
Það var mat samninganefndarinnar að lengra yrði ekki komist eftir hörð átök og eðlilegt að bera samninginn upp til atkvæða meðal félagsmanna. Næstu tvær vikurnar verður samningurinn kynntur í aðildarfélögum SGS og skal niðurstaða atkvæðagreiðslu liggja fyrir 22. júní.
Gildistími samningsins er frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018. Hækkanir launa koma til framkvæmda 1. maí ár hvert, alls fjórum sinnum. Frá 1. maí 2018 er lágmarkstekjutrygginin 300 þúsund krónur. Taxtar hækka svo: 1. maí 2015 um 25.000 krónur, 1. maí 2016 um 15.000 krónur, 1. maí 2017 um 4,5% og 1. maí 2018 um 3%. Að auki eru byrjunarlaunaflokkar færðir upp í 1 árs þrep og neðstu launaflokkar eru óvirkjaðir. Launafólk getur því færst til í taxtakerfinu og hækkað þannig í launum umfram það sem hækkanir taxta segja til um, mest hækkar fólk í neðstu þrepunum.
Almennar hækkanir verða 3,2-7,2% við undirritun samnings, prósentuhækkunin fer lækkandi eftir hærri tekjuþrepum. Árið 2016 (1. maí) er almenn hækkun 5,5%, árið 2017 er almenn hækkun 3% og ári síðar 2%.
Lágmarkstekjutryggingin hækkar í fjórum þrepum, verður 245.000 krónur við undirritun samnings, 260.000 árið 2016, 285.000 árið 2017 og 300.000 árið 2018 eins og áður greinir.
Orlofs og desemberuppbætur fara stighækkandi næstu þrjú árin, samtals 23.900 innan þriggja ára eða rúmlega 20%.
Fiskvinnslufólk hækkar sérstaklega og m.a. með tveggja flokka launahækkun til handa þeim sem starfað hafa hvað lengst við fiskvinnslu. Einnig tókst að tryggja lágmarksbónus í fiskvinnslu sem hefur verið baráttumál SGS frá því hóplaunakerfi var tekið upp í fiskvinnslu. Þar að auki hækkar bónus í fiskvinnslu til viðbótar almennum launahækkunum.
Formaður Framsýnar undirritaði nýja kjarasamninginn í gær, það er fyrir Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar sem eru aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands. Hér er hann ásamt Magnúsi Péturssyni ríkissáttasemjara sem lætur af störfum um helgina eftir farsælt starf. Aðalsteinn og Magnús hafa unnið vel saman í gegnum tíðina.