Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á liðnu ári

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Ef marka má heimsóknir á síðuna eru menn mjög duglegir að fylgjast með starfsemi félaganna. Sem dæmi má nefna að 3.462 heimsóttu síðuna á viku tímabili í maí.

Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Vinnustaðaheimsóknir hafa aldrei verið fleiri en á síðasta starfsári sem og félagsfundir. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Reyndar er nokkur óvissa varðandi framkvæmdirnar á Bakka. Verði að framkvæmdunum er ekki ljóst hvernig við bregðumst við varðandi mannahald á skrifstofunni. Hugsanlega þurfum við að ráða starfsmann til að sinna verkefnum er tengjast uppbyggingunni. Því hefur verið haldið fram að allt að 700 manns komi að uppbyggingunni þegar mest verður. Slíkur fjöldi kallar á aukna þjónustu frá Skrifstofu stéttarfélaganna.

Þá hefur góð nýting verið á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Þá er greinilegt að framkvæmdir sem hafnar eru á svæðinu s.s. á Þeistareykjum og væntanlegar framkvæmdir á Bakka kalla á aukna notkun á fundarsal stéttarfélaganna þar sem verktakar og aðrir þeir sem koma að framkvæmdunum hafa þegar sóst eftir aðstöðu fyrir fundi og námskeið sem tengjast t.d. framkvæmdunum á Þeystareykjum. Salurinn er töluvert bókaður undir námskeið og fundi um þessar mundir sem tengist þessum framkvæmdum sem þarf ekki að koma á óvart þar sem salurinn er sérstaklega útbúin fyrir námskeið og fundi.

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna var til umræðu á aðalfundi Framsýnar í síðustu viku. Fundarmenn voru ánægðir með þjónustu félagsins við félagsmenn. Ef marka má brosið á þessum myndarlegu konum sem komu við á skrifstofunni eru menn ánægðir með þjónustu stéttarfélaganna.

Deila á