Aðalfundur orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum var haldinn síðastliðinn föstudag. Á fundinum lét Hákon Hákonarson af störfum sem formaður stjórnar orlofsbyggðarinnar en stjórnarseta hans spannar orðið yfir 38 ár. Við keflinu af Hákoni tók Björn Snæbjörnsson. Hákoni voru þökkuð stjórnarstörfin og Björn boðinn velkominn sem næsti formaður og hvattur til góðra verka.
Orlofshúsin á Illugastöðum eru nú 32 talsins, en mikið starf hefur verið unnið þar við uppbyggingu síðustu áratugi, byggðin vaxið og dafnað, stjórn orlofsbyggðarinnar og stéttarfélögunum sem að henni standa til mikils sóma. Nú er unnið að nýju deiliskipulagi sem gefur m.a. möguleika á að bæta við byggðina öðrum 32 húsum og verður það skipulag væntanlega kynnt almenningi í lok þessa mánaðar.
Búið var á Illugastöðum til ársins 1961 og til gamans má geta þessa að fráfarandi formaður orlofsbyggðarinnar sleit þar bernskuskónum, en síðustu ábúendur á Illugastöðum voru afi hans og amma Gunnar Sigurjónsson og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir.
Framsýn stéttarfélag þakkar Hákoni Hákonarsyni vel unnin störf í þágu orlofsbyggðarinnar og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. framsýn stéttarfélag á eitt orlofshús á Illugastöðum.