Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar var með magnað ávarp á hátíðarhöldunum á Húsavík sem hófust kl. 14:00 í dag.

Ágætu gestir.

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur í hér í dag og mig langar að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn. 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er í mínum huga einn mesti hátíðisdagur ársins. Hann er ekki bara baráttudagur íslensks verkafólks, því í dag koma menn saman um heim allan til þess að leggja áherslu á kröfur sínar um réttlátara þjóðfélag, gleðjast yfir þeim sigrum sem náðst hafa og leggja á ráðin um þau baráttumál sem framundan eru.

Í dag höldum við 1. maí hátíðlegan í skugga yfirvofandi verkfalla. Verkfallsaðgerðir eru þegar byrjaðar að hafa áhrif víða í þjóðfélaginu og fjölmargar starfsstéttir hafa skipulagt aðgerðir á næstu vikum. Þar, rétt eins og á almennum vinnumarkaði virðist fátt benda til þess að viðsemjendum hinumegin borðsins hugnist að skera stærri sneið af þjóðarkökunni fólkinu til handa. Krafa verkalýðshreyfingarinnar nú um að lægstu laun verði komin í 300 þúsund á mánuði eftir þrjú ár þykir atvinnurekendum hin mesta firra. Það er undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem að sitja handan samningaborðsins skammta sér sjálfir mánaðarlaun sem eru í sumum tilfellum langt umfram árslaun verkamannsins.

100 ár er ekki langur tími í veraldarsögunni, en saga skipulagðar verkalýðsbaráttu á Íslandi er orðin rúmlega aldar gömul. Það hrikti í stoðum gamla bændasamfélagsins, sem morrað hafði í kyrrstöðu í gegnum aldir og við tók tími iðnbyltingar. Bændur höfðu til þess tíma haft nær ótakmarkaðan rétt yfir hjúum sínum en breytingar voru yfirvofandi og fólkið streymdi úr sveitunum á mölina í leit að fleiri tækifærum og betra lífi. En lífsbaráttan var áfram vægðarlaus, vinnudagurinn langur og kjörin bág, en þarna á tímum þeirra miklu breytinga sem urðu í atvinnulífi þjóðarinnar stofnuðu verkamenn með sér baráttusamtök. Fólk var búið að átta sig á því að samtakamáttur væri vopnið sem væri lykill að betri lífskjörum og verkalýðsfélög spruttu upp víða um land upp úr aldamótunum 1900. Og barátta íslenskra öreiga var hafin. Húsvískir verkamenn stofnuðu verkamannafélag Húsavíkur 1908 og 1914 stofnuðu verkakonur hér á Húsavík verkakvennafélagið Von.

Í ár minnumst við þess að 100 ár eru liðin síðan að alþýða fólks á Íslandi, 40 ára og eldri fékk almennt kosningarétt, ekki bara konur heldur einnig eignalausir karlar. Og enn áttu eftir að líða fimm ár þar til Alþingi setti lög sem færðu öllum 25 ára og eldri kosningarétt, óháð kyni og atvinnu. Þá loks voru konur og vinnumenn orðin jafnrétthá „karlmönnum“.

Konur voru á þessum tíma ekki velkomnar inn í félög karla, þeir óttuðust samkeppni um vinnuna sem oft var af skornum skammti á þessum tíma, sú skoðun var einnig ríkjandi að hlutverk kvenna væri að vera heima og sjá um þau verk sem þeim tilheyrðu, gæta bús og barna. Eða eins og maðurinn sagði fyrir ekki svo löngu síðan – að staða kvenna væri á bak við eldavélina.

Á þessum tíma fengu konur helmingi minni laun en karlar. Í hverju ætli það hafi legið? Kannski var skýringin sú að þannig hafði það nú bara alltaf verið. Konur áttu að þurfa minni mat en karlar, taldar þurfa minna til sín og þeirra vinna hafði ósköp einfaldlega alltaf verið til færri fiska metin.

Því betur báru menn síðar gæfu til að sameina krafta sína og í dag eru verkalýðsfélög að sjálfsögðu skipuð fólki af báðum kynjum. Flestum körlum og það sem skiptir ekki síður máli, okkur konum sjálfum ætti líka að vera orðið það ljóst að við stöndum körlum ekki að baki á nokkurn hátt.

Í dag ölum við dætur okkar upp með það að leiðarljósi að þeim séu allir vegir færir, enda er það svo að konur hafa haslað sér völl í flestum þeim störfum sem áður voru skilgreind sem hefðbundin karlastörf.

„Þori ég, vil ég, get ég, – já, ég þori, get og vil“ sungu íslenskar konur fyrir bráðum 40 árum, 24.oktober 1975 þegar þær tóku sér frí frá störfum til að minna á mikilvægi vinnuframlag síns í samfélaginu. Þær vildu og vilja enn jafna stöðu beggja kynja til reksturs þjóðfélagsins, við stjórnun og ákvarðanatöku ásamt með og öllu sem lýtur að sameiginlegum hagsmunum samfélagsins.

Sannarlega orð í tíma töluð, enda:

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Hvað er svona merkilegt við það að bora í vegg?

Hvað er svona merkilegt við það að bera áburðarpoka?

Hvað er svona merkilegt við það að taka upp vél?

Að vinna á lyftara. Það er ekkert mál.

Er eitthvað merkilegt við það að vinna á skurðgröfu?

Er meiriháttar mál að skipta um dekk á vörubíl?

Svo, hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Ja

En jafnrétti kynjanna felst ekki eingöngu í því að við konur fáum að bera áburðarpoka eða skipta um dekk, vissulega á jafnrétti að virka í báðar áttir. Karlar í dag taka enda ríkan þátt í uppeldis og heimilisstörfum, geta látið sjá sig úti á götu með barnavagn og skipt á skítableijum án þess að setja verulega niður við það. Líffræðilegur munur kynjanna er ekki lengur fyrirstaða fyrir því að karlmenn geti unnið í leikskóla og ,, pabbar í dag geta pissað sitjandi og þeir mega líka gráta.“ Stelpur, erum við ekki frekar á réttri leið?

Þó svo að launakjör kvenna hafi vissulega þokast í rétta átt og atvinnuþáttaka kvenna sé óvíða í heiminum meiri en á Íslandi, er staðan samt ekki enn ásættanlegt.

Á sama tíma og við konur fögnum 100 ára kosningarétti segja nýlegar tölur frá Hagstofu Íslands að kynbundinn launamunur sé verulegur hér á landi, og hvað mestur á almennum vinnumarkaði, eða tæp 20%. Það segir okkur að enn eru mörg áratog að landi.

Verkalýðsbarátta snýst ekki bara um laun. Jafnréttismál eru samfléttuð verkalýðsbaráttunni. Baráttu sem snýst um jöfnuð í samfélaginu sem við búum í, um velferðarþjóðfélagið sem kynslóð forfeðra okkar, bæði mæðra og feðra hefur byggt upp fyrir okkur. Þessi auður sem við búum við í dag varð til fyrir samstöðu bláfátæks launafólks. Það er nokkuð sem við megum aldrei gleyma og við stöndum í ævarandi þakkarskuld við fókið sem ruddi brautina til þess að við gætum lifað mannsæmandi lífi.

Við getum rétt ímyndað okkur hvernig staðan væri hjá almenningi á Íslandi ef þeir sem á undan okkur gengu hefðu ekki barist fyrir því sem við réttindakynslóðin njótum góðs af í dag. Þegar við tölum hnakkakerrt um réttindi okkar til þessa eða hins væri ekki úr vegi að við veltum aðeins fyrir okkur hvernig líf okkar væri ef þessi réttindi væru ekki fyrir hendi. Ef ekki væru almannatryggingar, atvinnuleysisbætur, veikindaréttur, vinnuverndarlög, fæðingarorlof, ákvæði um lengd vinnudagsins og allt þetta sem við eigum rétt á í dag? Þetta og margt fleira eru atriði sem verkalýðshreyfingin hefur beitt sér fyrir og náð fram. Baráttan var erfið, hún tók langan tíma en sigrarnir komu í áföngum einn af öðrum.

Við getum þakkað það okkar eldri félögum sem ruddu brautina með fórnfýsi og óeigingirni að vopni því það var ekki alltaf logn og blíða í kringum baráttuna. Menn létu sverfa til stáls og margra vikna verkföll þurfti til að knýja fram nýja sigra. Lífsbaráttan var hörð og ekki sjálfgefið að eiga fyrir mjólk og brauði, og við erum að tala um tíma þar sem gúmmístígvél voru munaðarvara.

Allt eru þetta atriði sem vert er að dusta rykið af í dag, á baráttudegi verkalýðsins og hafa það jafnframt í huga að réttindum fylgja skyldur. Og það er okkar skylda að standa vörð um það sem áunnist hefur og skila áfram til næstu kynslóðar.

Brauðmolakenning auðvaldsins byggir á því að það sé hagkvæmt að hinir ríku verði ríkari því þá munu brauðmolar hrjóta af gnægtaborðum þeirra til hinna fátækari þannig að ójöfnuðurinn gagnist öllum. Þessi kenning ætti öllum sem fylgst hafa með þjóðfélagsumræðu síðasta árs að vera ljós eftir umræður á Alþingi í vetur. Þar ræddu menn um lækkun virðisaukaskatts á heimilistækjum og einn þingmaður Sjálfstæðismanna sagði þar orðrétt:,, Það er nefnilega einmitt gott að þeir efnameiri geti keypt heimilistæki núna og skipt um, til þess að þeir efnaminni geti keypt góð heimilistæki á eftirmarkaði á lágu verði. Öllum til hagsbóta.“

Fjármálaráðherra tók í sama streng í blaðaviðtali hér á dögunum þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvort mögulega hafi verið gengið of langt í að jafna kjörin.

Það er eitthvað sem segir mér að þeim ráðamenn þjóðarinnar sem tileinka sér hugsanahátt að þessu tagi sé það ekki efst í huga vinna að því að bæta hag þeirra sem minna mega sín.

Það er staðreynd að fátækt brennur á æ stærri hópi fólks í allri velferðinni sem við viljum svo gjarnan kenna okkur við og sífellt stækkandi hópur fólks á ekki fyrir nauðsynjum. Í þeim hópi eru aldraðir ( þeir sem ég var að tala um að hefðu byggt upp samfélagið fyrir okkur) öryrkjar, einstæðir foreldrar, innflytjendur og fólk á lægstu laununum. Greint var frá því í fréttum fyrr í vikunni að í síðustu úthlutun Mæðrastyrksnefndar hafi 600 manns þegið mataraðstoð.

Haft var eftir framkvæmdastjóra nefndarinnar að þar á bæ hefði aldrei sést svona sprenging í úthlutun áður.

Er það svona þjóðfélag sem kennir sig við jöfnuð og velferð?

Ísland er í dag þrátt fyrir efnahagshrunið eitt ríkasta land í heimi en rétt eins og brauðsneiðin sem við missum á gólfið skal alltaf lenda á smjörinu, virðist auðurinn ávallt sækja á fárra hendur. Brauðmolahagfræðin breikkar stöðugt bilið á milli þjóðfélagshópa. Það er óréttlátt og því viljum við að breyta.

Ágæta samkoma. Baráttunni um brauðið er hvergi nærri lokið. Það eru átök framundan á vinnumarkaði,vaxandi ólga í þjóðfélaginu og langlundargeð okkar fólks er ósköp einfaldlega á þrotum. Almenningur á Íslandi hefur sýnt mikla þolinmæði og tekið á sín breiðu bök svokallaðar hóflegar launahækkanir. En dæmið gengur ekki lengur upp, okkur er misboðið. Það er eins víst og að tvisvar sinnum tveir eru fjórir, að til þess að geta lifað af launum sínum þurfa þau að duga til framfærslu, það þarf enga háskólamenntun til að átta sig á því.

Ég talaði hér áðan um að forfeður okkar hefðu með samstöðu sinni fært okkur þau réttindi sem við njótum i dag. Samstaða er okkar fjöregg, það mikilvægasta sem við eigum og það má aldrei brotna. Samstaða okkar er ekki föl fyrir allt heimsins fé, og það hefur sjaldan verið meiri þörf á henni en í einmitt í dag.

Góðir félagar.- Frelsi, jafnrétti og bræðralag – fyrir okkur öll

Deila á