Í bréfi formanns Framsýnar til félagsmanna í dag skorar hann á félagsmenn að greiða atkvæði með boðun verfalls þar sem Samtök atvinnulífsins hafna alfarið kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands um hækkun lægstu launa sem Framsýn á aðild að.
Kæri félagi!
Með þessu bréfi vil ég hvetja þig til að greiða atkvæði með boðun verkfalls. Þú átt að hafa fengið í hendur kjörgögn frá Starfsgreinasambandi Íslands sem Framsýn er aðili að.
Þannig er að atvinnurekendur (SA) hafa hunsað kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lægstu launa. Til að knýja á um hærri laun hefur verið ákveðið að boða til verfalls eftir páska.
Vonandi tekst að semja fyrir þann tíma, ef ekki, verður farið í verkfall enda verði það samþykkt í atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir. Verði verkfallsheimildin samþykkt ber öllum félagsmönnum Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að leggja niður vinnu og fara í verkfall.
Það er þessa daga hjá félagsmönnum Framsýnar:
10. apríl: Allsherjarvinnustöðvun frá kl. 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands.
16. apríl: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur.
27. apríl: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Snæfellinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.
30. apríl: Allsherjarvinnustöðvun frá kl. 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands.
Takist ekki að semja í apríl hefjast frekari aðgerðir 12. maí.
Þeir sem hafa ekki aðgengi að tölvu er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kjósa. Opið er virka daga frá kl. 08:00 til 16:00. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til kl 24:00 þann 30. mars.
Hafðu endilega samband ef frekari upplýsinga er þörf.
Hægt verður að fylgjast með framvindu mála inn á heimasíðu Framsýnar, www.framsyn.is
Húsavík 23. mars 2015
Fh. Framsýnar, stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson
Hér má sjá formann Framsýnar í fiskvinnslu á árum áður. Fiskvinnslufólk krefst hærri laun líkt og aðrir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands.