Félögin undirbúa atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun

„ Kröfur Starfsgreinasambandsins falla í góðan jarðveg meðal félagsmanna, ég skynja ekki annað. Við teljum krónutöluhækkanir sjálfsagðar og að miðað verði við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Einnig að launatöflur verði endurskoðaðar þannig að starfsreynsla og menntun verði metin til launa, vaktaálag verði endurskoðað, desember- og orlofsuppbætur hækki, lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu og ný starfsheiti skilgreind í launatöflu,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar-stéttarfélags.

Skemmst er frá því að segja að Samtök atvinnulífsins brugðist hart við kröfugerðinni og sögðu engar forsendur til viðræðna, kröfurnar væru bensín á verðbólgubálið. Starfsgreinasambandið vísaði kjaradeilunni því til ríkissáttasemjara. Gildandi kjarasamningar runnu út nú um mánaðamótin og segir Aðalsteinn Árni krónutöluhækkanir ófrávíkjanlega kröfu.

„ Það sér hver maður að krónutöluhækkun kemur þeim lægst launuðu best, þeir sem eru á hæstu laununum hagnast eðlilega á prósentuhækkunum. Sá sem er með milljón á mánuði fær miklu meira í vasann en sá sem er með 300 þúsund krónur. Allir félagsmenn sem ég hef hitt eru á þessari skoðun og nýjasti bandamaður okkar í þessum efnum er sjálfur forsætisráðherra. Ég trúi ekki öðru en að vinnuveitendur kaupi þessi rök okkar og láti undan í sínum málflutningi um að ekkert sé til skiptanna.“

Samstaða mikilvæg

Aðalsteinn Árni segir að Framsýn hafi lagt ríka áherslu á að vera í nánum tengslum við félagsfólk varðandi mótun og gerð kröfugerðarinnar.

„ Við efndum til félagsfunda um kjaramál, auk þess sem fjölmargir vinnustaðir á félagssvæðinu voru heimsóttir. Sérstaklega var kallað eftir skoðunum fólks og áherslum í kjaraviðræðunum og heimasíðan okkar hefur sömuleiðis verið lifandi vettvangur í þessum efnum. Þeir samningar sem gerðir hafa verið við einstakar starfsstéttir á undanförnum mánuðum hljóta að vísa launafólki veginn. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að fólk geti lifað sómasamlegu lífi af dagvinnulaununum í stað þess að þurfa að treysta á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð til að framfleyta sér og sínum. Á næstu vikum skýrast línurnar sennilega í kjaraviðræðunum og þá er mikilvægt að launafólk sýni samstöðu. Við getum ekki enn eina ferðina setið eftir í launamálum og horft á nánast allar aðrar stéttir hækka miklu meira.“

Aðgerðarhópur Framsýnar skipaður

Aðalsteinn Árni segir að Framsýn hafi þegar skipað þriggja manna aðgerðarhóp, sem meðal annars hafi það verkefni að koma með tillögur að aðgerðum til að ýta á eftir sanngjörnum kröfum um bætt kjör félagsmanna.

„ Já, þessi aðgerðarhópur hefur verið skipaður og Starfsgreinasambandið undirbýr atkvæðagreiðslu um samræmdar verkallsaðgerðir um land allt. Við höfum í raun og veru ekkert annað vopn en verkfallsvopnið. Auðvitað vona ég að ekki þurfi að beita þessu vopni, en mér sýnist að atvinnurekendur vilji keyra öllu í verkföll og ábyrgðin er þá þeirra. Kröfur okkar eru sanngjarnar og þjóðin stendur með okkur. Hræðsluáróðurinn verður án efa áberandi á næstu vikum og þess vegna er svo mikilvægt að launafólk standi þétt saman. Ég hvet því alla félaga til að taka þátt í væntanlegri atkvæðagreiðslu og sýna þannig að okkur er full alvara. Mikilvægt er að fólk greiði atkvæði með verkfallsboðun.“

Þjóðin stendur með launafólki

Formaður Framsýnar-stéttarfélags segir að vinnudeilusjóður félagsins sé öflugur, komi til verkfalla.

„ Já, sjóðurinn er ágætlega stöndugur, sem betur fer. Starfsgreinasambandið fer með umboð sextán aðildarfélaga um land allt og semur fyrir rúmlega 12 þúsund manns á almennum vinnumarkaði. Slagkraftur þessara félaga er því mikill, þurfi að grípa til verkfalla. Flest sjávarútvegsfyrirtæki landsins skila miklum hagnaði, ferðaþjónustan vex gríðarlega og stóru fyrirtækin skila eigendum sínum myndarlegum hagnaði og arði. Í síðustu viku birtu bankarnir uppgjör, samanlagður hagnaður þeirra var um 80 milljarðar. Á sama tíma eru sanngjarnar kröfur launafólks sagðar fara með þjóðfélagið á hausinn. Þess vegna tala ég um nauðsyn samstöðunnar, þorri þjóðarinnar styður sjálfsagðar og sanngjarnar kröfur launafólks. Á því leikur enginn vafi í mínum huga. Komi til verkfalla, er ábyrgðin vinnuveitenda. Það eru hreinar línur.“

Viðtal: Karl Eskil Pálsson, fjölmiðlamaður.

Formaður Framsýnar leggur mikið upp úr samstöðu verkafólks í yfirstandandi kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins. Verkafólk eigi rétt á launahækkunum til jafns við aðra.

Það kalla margir eftir nýju Íslandi sem byggi á jöfnuði í stað þeirrar miklu misskiptingar sem viðgengst í landinu. Hér er formaður Framsýnar að tala á útifundi á Austurvelli um misskiptinguna og spillinguna sem viðgengst því miður í landinu.

Deila á