Misskiptingin í verki

Vetur konungur hefur sannarlega minnt okkur Íslendinga á tilvist sína undanfarnar vikur og mánuði. Samgöngur hafa raskast bæði á lofti og láði og virðist sem lítið lát sé þar á.

Við verðum óneitanlega vör við þegar pósturinn berst okkur ekki sökum veðurs og ófærðar og þeir eru orðnir nokkrir dagarnir í vetur sem það hefur gerst. Kannski ættum við að leiða hugann að því þegar við handfjötlum póstinn okkar að oft er búið að hafa mikið því að koma honum í okkar hendur. Þeir myndu seint kallast hálaunamenn, þeir sem aka með póstinn út um byggðir landsins og þurfa láta sig hafa það að þvælast um þjóðvegina í hvaða veðrum sem er. Þeirra kjör þarf að leiðrétta í komandi kjarasamningum, rétt eins og annarra verkamanna á íslenskum vinnumarkaði.

Á sama tíma og starfsmenn Íslandspósts berjast áfram í ófærðinni á lélegum launum gera yfirmenn fyrirtækisins vel við sig. Samkvæmt fréttum greiddi Íslandspóstur samtals 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar ríkisfyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. Kostnaður við rekstur bifreiðanna nam alls 8,8 milljónum króna í fyrra þegar fyrirtækið lagði áfram áherslu á aðhald í rekstri eftir 119 milljóna króna tap 2013. Samkvæmt svari Póstsins við fyrirspurn DV hefur fyrirtækið keypt tvo jeppa af gerðinni Ford Explorer, einn Ford Expedition-jeppa og fólksbíllinn Volvo V70. Bílarnir voru keyptir nýir á árunum 2007 og 2008. Seinna eignaðist fyrirtækið einnig tvo notaða Toyota Land Cruiser-jeppa sem voru árgerð 2007.

Þessi ágæti starfsmaður Íslandspósts ekur  ekki um á Land Cruiser-jeppa í eigu póstsins eins og stjórnendur fyrirtækisins telja eðlilegt að þeir komist upp með. Þetta er gróf misskipting.

Deila á