
Ályktun
Um veiðiheimildir
„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir óánægju sinni með þann mikla tilflutning sem orðið hefur á veiðiheimildum úr sveitarfélögum á félagssvæði Framsýnar yfir í önnur byggðalög á síðustu misserum.
Framsýn skorar á sveitarstjórn Norðurþings að kanna hvort rétt hafi verið staðið að þessum tilflutningum á veiðiheimildum, það er hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum sem gilda um sölu á veiðiheimildum úr byggðalögum.
Framsýn telur það vera siðferðislega skyldu kvótahafa á hverjum tíma að bjóða heimamönnum í sjávarútvegi forkaupsrétt á veiðiheimildum áður en þær eru boðnar til sölu á almennum markaði. Þannig er hægt að stuðla að því að öflugur sjávarútvegur haldist á svæðinu.“

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar síðasta fimmtudag. Á fundinum var m.a. fjallað um sölu á veiðiheimildum úr byggðalaginu sem er slæm þróun að mati forsvarsmanna Framsýnar.