Hart tekist á um kjaramál

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ var gestur á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í gær. Fulltrúum frá Þingiðn, félagi iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum og Verkalýðsfélagi Þórshafnar var einnig boðið að sitja fundinn.  Óhætt er að segja að fundurinn hafi verið fjörlegur en hann stóð yfir í tæpa þrjá tíma. Á fundinum fór Gylfi yfir komandi þing sambandsins, fjárlagafrumvarpið, síðustu og komandi kjarasamninga. Miklar og kröftugar umræður urðu í kjölfarið þar sem Gylfi var gagnrýndur fyrir ýmislegt um leið og hann var brýndur til góðra verka í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og í samskiptum við ríkistjórnina. Ljóst er að félagsmenn Framsýnar eru klárir í átök í vetur enda verði samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar um að krefjast leiðréttinga á kjörum verkafólks til jafns við þá hópa sem fengið hafa verulegar launahækkanir á silfurfati umfram verkafólk sem býr við það ömurlega hlutskipti að vera á lægstu launatöxtum sem þekkjast á Íslandi.
Það var hart tekist á fundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum  með forseta ASÍ í gær.
Formaður Framsýnar fór hörðum orðum um síðustu kjarasamninga og krafðist þess að verkalýðshreyfingin hörfaði ekki í komandi kjaraviðræðum eins og gerðist í síðustu kjarasamningum sem undirritaðir voru í lok desember 2013.
Gylfi kom víða við í máli sínu og sagðist sjá fyrir sér átök í vetur.
Fundurinn var mjög líflegur og Gylfi fékk margar fyrirspurnir sem hann leitaðist við að svara.
Fulltrúar frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar komu til Húsavíkur til að taka þátt í fundinum.
Deila á