Samstaða innan SGS – viðræður við SA framundan

Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands funduðu í Reykjavík í gær, það er fyrir utan þau þrjú félög sem mynda Flóabandalagið. Á fundinum var farið yfir kjaramál og áherslur félaganna í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir 21. desember 2013 renna út upp úr næstu áramótum. Vilji er til þess innan félaganna að standa saman í komandi kjaraviðræðum við SA ekki síst vegna þess að búast má við hörðum átökum í vetur gangi kröfur verkalýðshreyfingarinnar ekki eftir. Eins og kunnugt urðu harðar deilur innan Starfsgreinasambandsins síðasta vetur. Deilurnar hafa verið lagðar til hliðar enda mikilvægara að félögin standi saman í stað þess að fara sundruð fram gegn Samtökum atvinnulífsins.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, mun leiða hóp innan Starfsgreinasambandsins sem mótar kröfur fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu á Íslandi sem fellur undir kjarasamning sambandsins og SA. Viðræður við Samtök atvinnulífsins hefjast í haust.
Deila á