Krefjast stofnanasamnings

Framsýn boðaði til starfsmannafundar með starfsmönnum á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir helgina.  Tæplega 20 starfsmenn starfa á svæðinu. Fundurinn fór fram í Gljúfrastofu í Ásbyrgi. Á fundinum kom fram hjá formanni Framsýnar að ekkert hefði gengið í viðræðum Starfsgreinasambands Íslands sem félagið á aðild að og forsvarsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar um gerð á nýjum stofnanasamningi fyrir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs. Sagðist hann mjög ósáttur við vinnubrögð viðsemjenda sem hefðu hunsað að endurnýja stofnanasamninginn. Eftir miklar og góðar umræður samþykktu starfsmenn samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:
Ályktun
Starfsmenn í Vatnajökulsþjóðgarði á norðursvæði skora á forsvarsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar  að ganga til samninga við Starfsgreinasamband Íslands með það að markmiði að ljúka endurskoðun á stofnanasamningi sem starfsmenn falla undir. Núverandi stofnanasamningur er frá 18. maí 2010.

Samkvæmt kjarasamningi sem gerður var milli fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisjóðs annars vegar og Starfsgreinasambands Íslands hins vegar 1. apríl 2014 var kveðið á um að endurnýja ætti stofnanasamninga þeirra stofnana sem falla undir kjarasamninginn í kjölfar samningsins.

Þrátt fyrir að Starfsgreinasambandið hafi ítrekað krafist þess að gengið verði frá stofnanasamningnum hefur Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun ekki orðið við þeirri ósk sem er óviðunandi með öllu.
Þannig samþykkt á starfsmannafundi í Gljúfrastofu  með forsvarsmönnum Framsýnar stéttarfélags fimmtudaginn 10. júlí 2014.
Fulltrúar Framsýnar funduðu með starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir helgina um kjaramál.
Systurnar Auður og Guðrún frá Kópaskeri starfa í Vatnajökulsþjóðgarði ásamt tæplega 20 öðrum starfsmönnum.
Deila á