Rekstur Framsýnar til fyrirmyndar

Samkvæmt ársreikningum Framsýnar var fjárhagsleg afkoma félagsins mjög góð á árinu 2013.  Þessar upplýsingar komu fram á aðalfundi félagsins í kvöld.  Rekstrarafgangur varð á öllum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu frá síðasta ári. Rekstrarútgjöld  félagsins hækkuðu einnig milli ára. 

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 144.177.030,- sem er aukning um 5,7% milli ára. Rekstrargjöld námu 116.226.997,- sem er aukning um 14,4% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkana á styrkjum til félagsmanna.  Fjármagnstekjur námu kr. 59.357.840,-.  Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 115.193.347,- á móti kr. 108.421.029,- á árinu 2012. 

Á síðasta ári varð tekjuafgangur félagsins í árslok kr. 82.138.782,- en var kr. 127.402.818,- árið 2012.  

Heildareignir félagsins námu kr. 1.482.592.787,- í árslok 2013 samanborið við kr. 1.392.692.578,- í árslok 2012. 

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 35.600.860. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.330.525 kr. til rekstrarins. 

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Félagsmenn Framsýnar til sjávar og sveita gleðjast yfir góðum rekstri Framsýnar sem skilar sér beint til félagsmanna í góðri þjónustu og aðgengi þeirra að öflugum styrkjum í gegnum sjóði félagsins.

Deila á