Óheimilt er að draga olíukostnað frá aflverðmæti til skipta á smábátum. AFL Starfsgreinafélag stefndi, fyrir hönd félagsmanns útgerð á Stöðvarfirði vegna vanreiknaðra launa, en við uppgjör var stuðst við skiptaprósentu skv. kjarasamningi SSÍ við Landssamband smábátaeigenda – en kostnaður skv. kjarasamningi SSÍ við LÍÚ dreginn frá aflverðmæti. Í kjarasamningi SSÍ við LS kemur skýrt fram að skipta eigi úr heildarverðmæti aflans og staðfesti dómurinn það. Þetta er því mikilvægur varðandi réttarstöðu smábátasjómanna.
Alls námu vangreidd laun á þriggja mánaða tímabili tæpum 1.600 þúsundum króna. Héraðsdómur Austurlands féllst á sjónarmið AFLs og fékk félagsmaðurinn dæmd fullan aflahlut skv. kröfum félagsins.
Skiptaprósenta skv. kjarasamningi við LS átti í þessu tilfelli að vera 21,6% af aflaverðmæti – en ef miðað hefði verið við kjarasamning við LÍÚ hefði útgerðinni verið heimilt að reikna skipti af 70% aflverðmætis en í því tilfelli hefði skiptaprósenta verið 30,3%.
Báturinn sem um ræðir í þessu máli er gerðinni Cleopatra – plastbátur tæpir 12 m að lengd og með 4 menn í áhöfn. Báturinn var á línuveiðum með beitingavél um borð.
Félagið mun á næstu vikum setja sig í samband við smábátasjómenn og útgerðir og kanna hvernig uppgjörsmálum er háttað.
Rétt er að taka fram að Sjómannadeild Framsýnar hefur ekki orðið var við annað en að smábátaeigendur á félagssvæðinu fari eftir gildandi kjarasamningum með einni undantekningu sem athugasemdir voru gerðar við.
Mikilvægt er að smábátasjómenn séu á vaktinni og láti vita ef þeir telja á sér brotið.