Bæjarráð harmar ákvörðun eigenda Vísis hf.

Bæjarráð Norðurþings fundaði í dag og sendi í kjölfarið eftirfarandi yfirlýsingu: 

Bæjarráð harmar þá ákvörðun eigenda Vísis hf., að loka starfsstöðvum sínum á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri.

Með ákvörðun um lokun á Húsavík er fallið frá þeim ákvæðum sem lýst er og staðfest var í samningi við sölu sveitarfélagsins á eignarhlut sínum í F.H. Samkvæmt samningi um sölu hlutar sveitarfélagsins í félaginu átti að byggja upp og efla starfsstöðina á Húsavík. 

Nú áformar kaupandinn að loka starfsstöðinni og flytja á brott allar aflaheimildir sem fylgdu kaupunum til Grindavíkur.  Bæjarráð mun aldrei láta slíkar aðgerðir óátalið enda um verulega hagsmuni að ræða fyrir samfélagið og það starfsfólk sem byggt hefur fyrirtækið upp á löngum tíma.

Þessi ákvörðun Vísis hf., sem tilkynnt var s.l. föstudag kemur bæjaryfirvöldum verulega á óvart og óskar bæjarráð eftir því að ákvörðunin verði afturkölluð og viðræður hafnar milli aðila um málið.

Bæjarráð felur bæjastjóra að óska nú þegar eftir fundi með stjórn og stjórnendum Vísis hf. Jafnframt óskar bæjarráð eftir fundi með fulltrúum stjórnvalda, þingmönnum kjördæmisins og Byggðastofnun.

Þess má geta að Framsýn stendur fyrir fundi með starfsmönnum Vísis hf. kl. 18:00 í dag þar sem farið verður yfir þessa grafalvarlegu stöðu.

Deila á