Áhugi fyrir því að stækka félagssvæðið

Gríðarlegur áhugi er fyrir því meðal verkafólks sem starfar utan félagssvæðis Framsýnar að ganga í félagið. Fram að þessu hefur það ekki verið auðvelt þar sem reglur félagsins miðast við að félagið nái yfir ákveðið félagssvæði sem eru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum. Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs í dag var samþykkt að fela formanni að skoða hvort hægt sé að breyta lögum félagsins þannig að félagssvæðið verði landið allt. Það verður gert í samráði við lögmenn félagsins og síðan borið undir Alþýðusamband Íslands. Tillagan var samþykkt samhljóða:

Tillaga um lagabreytingu
„Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkir að fela formanni í samstarfi við lögmenn félagsins að undirbúa lagabreytingu fyrir næsta aðalfund félagsins sem áætlaður er í mars 2014. Um er að ræða breytingu á 1. grein félagslaga sem fjallar um heiti og starfssvæði. Við það verði miðað að félagssvæði Framsýnar verði landið allt.“

 Töluverður áhugi er meðal verkafólks að ganga í Framsýn, það er fólk sem starfar utan við skilgreint félagsssvæði Framsýnar, sem eru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum.

Deila á