ASÍ biðst afsökunar

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, gerði alvarlegar athugasemdir við ákvörðun Alþýðusambands Íslands um að  birta grein Sighvats Björgvinssonar á Facebook síðu sambandsins og krafðist þess að hún yrði tekin út af síðunni þegar í stað. 

Grein Sighvats birtist í Fréttablaðinu á gamlársdag.  Þar fer fyrrverandi ráðherrann og þingmaðurinn mjög hörðum og ósanngjörnum orðum um þá formenn innan Starfsgreinasambandsins sem treystu sér ekki til að skrifa undir kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands þar sem þeir álitu hann ekki boðlegan verkafólki og undir væntingum. 

Athygli vakti að Alþýðusambandið skyldi sjá ástæðu til að birta þessi níð-skrif um formenn stéttarfélaga innan sambandsins þar sem tilgangur sambandsins er að vera málsvari aðildarsamtaka sambandsins. 

Í 4. grein laga Alþýðusambandsins segir að  markmið sambandsins sé að efla starf aðildarsamtaka ASÍ eftir mætti og vinna að gagnkvæmum stuðningi aðildarsamtakanna hverju við annað í starfi þeirra í kjarabaráttunni. 

Er það gert með því að birta níð-skrif Sighvats Björgvinssonar sem ber sinn boðskap á torg af miklu þekkingarleysi? NEI! 

Þá er rétt að geta þess að umrædd stéttarfélög, sem eru fimm að tölu, greiða vel á annan tug milljóna til rekstrar ASÍ og aðildarsambanda á hverju ári. Eðlilega hafa vaknað upp spurningar, eftir þessa einstöku uppákomu, hvort þessum peningum félagsmanna sé vel varið. Það er að Alþýðusambandið noti þá til að vinna gegn ákveðnum skoðunum stéttarfélaga sem eru ekki tilbúinn að fylgja eftir skoðunum forseta ASÍ í einu og öllu burt séð frá hagsmunum félagsmanna. 

Í pósti sem formaður Framsýnar hefur undir höndum frá upplýsinga- og kynningarfulltrúa Alþýðusambands Íslands kemur fram að grein Sighvats hafi verið tekin úr birtingu. Jafnframt er beðist afsökunar á birtingunni sem hafi verið vanhugsuð og á hans ábyrgð. Aðalsteinn segist virða niðurstöðuna.

Deila á