Þakklæti efst í huga

Á fundi sem forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga boðuðu til rétt fyrir jólin gerði Svala Hermannsdóttir formaður Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga grein fyrir höfðinglegri gjöf félagsins til HÞ . Í máli Svölu kom fram að Styrktarfélagið hefur gefið  HÞ alls um 6,3 milljónir króna til tækjakaupa á árinu 2013. Hún notaði tækifærið og þakkaði öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til styrktarfélagsins s.s. félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum. Án framlaga frá þeim hefði þessum góða árangri aldrei verið náð. Þá sagði Svala að ekki þyrfti að fara mörgum orðum um mikilvægi þess fyrir samfélagið að hafa gott aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu eins og  Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefur veitt og ætti vonandi bara eftir að eflast.

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga sem var stofnað 1. febrúar 1996 hefur reynst ómetanlegur bakhjarl  fyrir stofnunina. Forsvarsmenn HÞ færðu þeim kærar þakkir fyrir hlýhug í garð stofnunarinnar. Svala Hermannsdóttir er hér að gera grein fyrir framlögum styrktarfélagsins til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga um leið og hún þakkaði öllum þeim sem lagt hafa félaginu til styrki svo þetta væri framkvæmanlegt.

Starfsfólk og velunnarar HÞ áttu góða stund saman fyrir jólin.

Deila á