Aðalfundur sjómanna- skýrsla stjórnar

Við sögðum frá því hér í gær á heimasíðunni að sjómenn innan Framsýnar hefðu komið saman á aðalfundi deildarinnar sem ávalt er haldinn milli jóla og nýárs enda sjómenn þá í landi samkvæmt ákveðjum kjarasamninga. Hér má lesa skýrslu stjórnar um starfsemina á liðnu starfsári. 

Ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar 

Kæru sjómenn! 

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska fundarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  

Í ár höldum við aðalfundinn í nýju húsnæði stéttarfélaganna, það er að Garðarsbraut 26 efri hæð, þar sem breytingar standa yfir á fundaraðstöðu félaganna vegna vatnstjóns sem varð þar fyrir rúmlega ári síðan. Alls voru 100 sjómenn skráðir í deildina árið 2013, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku. 

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Stefán Hallgrímsson varaformaður,  Kristján Þorvarðarson ritari og í varastjórn voru Björn Viðar og Haukur Hauksson.  

Stjórnin hélt tvo formlega stjórnarfundi á árinu. Formaður deildarinnar situr auk þess í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á árinu sem er að líða.  

Sjómannasamband Íslands stóð fyrir tveggja daga formannafundi á Húsavík í október 2013.  Auk þess að funda stóð Sjómannadeild Framsýnar fyrir óvissuferð um Húsavík og Mývatnssveit. Á Húsavík var Helguskúr, Sjóminjasafnið og Hvalasafnið skoðað.  Í Mývatnssveit var boðið upp á kaffi og meðlæti í Vogafjósi auk þess sem gestirnir fóru í Baðlónið. Fundarmenn voru almennt mjög ánægðir með fundinn en helstu málefni fundarins voru, verðlagsmál, staða kjaraviðræðna við LÍÚ, sjómannaafslátturinn, fiskverðsmál, afnám laga um greiðslumiðlun, veiðigjöld og stjórn fiskveiða. Þá stóð Framsýn fyrir kynningu á starfsemi félagsins auk þess sem Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings flutti áhugaverða tölu um atvinnulífið á Húsavík og væntanlega uppbyggingu á Bakka. 

Samkvæmt samkomulagi sá Sjómannadeildin um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2013 voru sjómennirnir Eiður Gunnlaugsson og Heimir Bessason heiðraðir fyrir sjómennsku. Athöfnin fór fram á Fosshótel Húsavík. 

Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og LÍÚ hefur nú verið laus frá 31. desember 2010 sem er gjörsamlega óþolandi staða. Á tímabilinu hefur þó verið samið um ákveðnar launahækkanir til sjómanna svo kauptryggingin haldi í við önnur laun hjá öðrum launþegum.

Á þessari stundu er ekki vitað hvort eða hvenær samningar takast milli aðila. LÍÚ hefur lagt fram langan lista með kröfum um skerðingar á kjörum sjómanna. Eðlilega eru sjómannasamtökin ekki tilbúin að samþykkja það. Í ljósi stöðu mála telur sjómannadeildin mikilvægt að fundurinn álykti um stöðuna og komi sínum skilaboðum þannig á framfæri. Það er vissulega óásættanlegt að ekki sé búið að ganga frá kjarasamningi fyrir hönd sjómanna á fiskiskipum. 

Í síðustu skýrslu var komið inn á mikilvægi þess að gengið yrði frá kjarasamningi fyrir áhafnir á hvalaskoðunarbátum á Húsavík. Það tókst á árinu 2013. Þann 9. ágúst 2013 skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins undir kjarasamning fyrir áhafnir á hvalaskoðunarbátum. Um er að ræða mikla réttarbót fyrir starfsmenn bátana enda almenn ánægja með samninginn meðal sjómanna. Forsvarsmenn Farmanna- og fiskimannasambandsins og Félags vélstjóra- og málmtæknimanna sá ástæðu til að gera athugsemdir við kjarasamninginn. Athugasemdunum var vísað til föðurhúsanna enda áttu þær ekki við rök að styðjast enda byggðar á sandi og ósannindum. Þessi tvö sambönd virtust hafa meiri áhuga fyrir því að tala niður þennan mikilvæga kjarasamning í stað þess að eyða tímanum í að semja fyrir sína umbjóðendur sem hafa verið samningslausir í nokkur ár og eru enn. 

Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar. 

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi  og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. 

Að síðustu langar mig að nefna þrjú atriði er tengjast starfsemi Framsýnar. Það er samningur sem félagið gerði við Flugfélagið Erni um afsláttarkjör fyrir félagsmenn sem fljúga á vegum flugfélagsins sem er gríðarlega góð kjarabót fyrir þá sem þurfa að fljúga milli landshluta. Félagið lauk við að gera myndband um starfsemi félagsins og er myndbandið aðgengilegt á heimasíðu félagsins. Það er á tveimur tungumálum, íslensku og ensku og er notað m.a. til kynningar á félaginu í skólum. Þá hafði Framsýn frumkvæði að því að stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum gæfu Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sjónmælingartæki í samstarfi við útibú Íslandsbanka á Húsavík. Tækið kostaði kr. 800.000 og var afhent nú fyrir jólin. 

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur reglulega fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem gefið er út á hverju ári. 

Í lokin vil ég þakka meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári. 

Jakob Gunnar Hjaltalín

Deila á