Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í kvöld. Fundurinn var að venju líflegur og auk þess málefnalegur. Fundurinn samþykkti að álykta um kjaramál og afnám sjómannaafsláttarins og að fela Sjómannasambandinu að ganga frá kjarasamningi fyrir smábátasjómenn innan félagsins. Sá kjarasamningur er laus í lok janúar 2014. Þá má geta þess að eftirtaldir voru kjörnir í stjórn deildarinnar:
Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Stefán Hallgrímsson varaformaður
Kristján Þorvarðarson ritari
Haukur Hauksson meðstjórnandi
Björn Viðar meðstjórnandi
Ályktanirnar eru eftirfarandi:
Ályktun
Um kjaramál sjómanna
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á sjómannasamtökin og LÍU að leita allra leiða til að ganga frá kjarasamningi fyrir sjómenn á fiskiskipum sem byggi á framlögðum tillögum Sjómannasambands Íslands. Sjómenn hafa nú verið kjarasamningslausir frá árslokum 2010 sem er ólíðandi með öllu.
Þá fagnar fundurinn þeim mikilvæga árangri sem náðist á árinu þegar Sjómannadeild Framsýnar gekk frá kjarasamningi fyrir áhafnir hvalaskoðunarbáta á Húsavík fyrst allra stéttarfélaga á Íslandi. Ljóst er að samningurinn bætir réttarstöðu þessara starfsmanna verulega.
Ályktun
Um afnám sjómannaafsláttarins
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar ítrekar enn og aftur mótmæli sín varðandi aðför stjórnvalda að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að kjör sjómanna skerðist ekki þó ákvörðun sé tekin um það á hinum pólitíska vettvangi að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna. Sjómannadeild Framsýnar krefst þess að stjórnvöld dragi skerðinguna nú þegar til baka sem að fullu á að koma til framkvæma um þessi áramót.
Samþykkt
Um samningsumboð fyrir kjarasamning smábátasjómanna
Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar samþykkir að fela Sjómannasambandi Íslands umboð til að gera kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda fyrir hönd félagsins. Kjarasamningurinn er laus 31. janúar 2014.
Sjómenn innan Framsýnar hafa í kvöld setið yfir málefnum deildarinnar í nýju húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín, fer hér yfir skýrslu stjórnar. Um 100 sjómenn eru innan deildarinnar.